Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 19:59:57 (3017)

1999-12-15 19:59:57# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[19:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að blanda mér nokkuð inn í þá umræðu sem fer fram við fjárlögin nú við 3. umr. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fékk til umræðu og álits að fara yfir efnahagslegu áhrifin af breyttri þjóðhagsspá og þeim forsendum sem fjárlagafrv. byggir á fyrir næsta ár og nýrri tekjuspá sem lá fyrir og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Ég verð að segja, herra forseti, að þótt umræðan í nefndinni hafi verið um margt fróðleg og ýmislegt hafi þar komið fram þá var umræðan þar í raun og sanni í skötulíki vegna þess að efh.- og viðskn. fékk nánast engan tíma til að skoða málið og var ætlast til þess að hún afgreiddi málið út á sömu klukkutímunum og hún fékk það til umfjöllunar. Það eru auðvitað engin vinnubrögð, herra forseti, að haga málum þannig.

Eftir því sem ég best veit er litið þannig á þetta ákvæði í þingskapalögum, það að nefndir þingsins fjalli um ákveðna þætti fjárlagafrv., að fjárln. hafi þau álit til ráðjafar en ég dreg það í efa, herra forseti, að vinnulag sé með þeim hætti í hv. fjárln. Maður veltir því fyrir sér ákvæði þingskapa um þessa ráðgjöf, eins og frá efh.- og viðskn., og hvaða tilgangi hún þjóni þegar nefndin fær engan tíma til að fjalla um álit sitt eða kalla fyrir fulltrúa til að fara yfir stöðu mála eða þá að það sé mikið litið á slík álit í fjárln.

En mér finnst, herra forseti, eftir að hafa skoðað stöðuna eins og hún lítur út núna við 3. umr. mála og stöðuna á ýmsum efnahagsstærðum í þjóðfélaginu, ekki síst hrikalegan viðskiptahalla, mikla útlánaþenslu og eyðslu í þjóðfélaginu og litla aðhaldssemi af hálfu ríkisstjórnarinnar, að þetta sé um margt vísbending og minnir á að þetta sé undanfari kreppu sem við séum að sjá í efnahags- og hagkerfi þjóðarinnar. Því miður, herra forseti, þá finnst mér það blasa við.

Herra forseti. Mér finnst að hér sé um töluvert mikil frávik að ræða sem við erum að fjalla um núna við 3. umr. frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Ég tók eftir því í Morgunblaðinu í dag að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson gerir mjög lítið með þær breytingar og þau frávik sem við erum að fjalla um núna við 3. umr. og segir þjóðhagsspá í meginatriðum eins og þá fyrri þó að ákveðin frávik séu.

Við erum að tala um veruleg frávik, við erum að tala um að viðskiptahallinn hefur frá því í september aukist úr 32 milljörðum í 38 milljarða. Við erum að tala um tekjuauka hjá ríkissjóði miðað við spá upp á tæpum 5 milljörðum meiri en ráð var fyrir gert áður.

Miðað við þá ofþenslu sem er í hagkerfinu og þennan hrikalega viðskiptahalla brá mér nokkuð við að sjá ummæli hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu í morgun ef við lítum til þeirrar miklu útlánaþenslu og þenslu almennt sem er í þjóðfélaginu. Hæstv. forsrh. orðar það eftir að hann hefur sagt að þetta séu ekki mikil frávik, með leyfi forseta:

,,Hins vegar eru menn að gera sér glaðan dag, kannski dálítið umfram það sem skynsamlegt er.``

Þetta eru ummæli hæstv. forsrh. þegar við stöndum frammi fyrir hrikalega miklum viðskiptahalla sem hefur aukist um marga milljarða á örfáum mánuðum. Þegar við sjáum útlánaþensluna, útlánin hjá bönkunum hafa á tiltölulega stuttum tíma tvöfaldast, hjá einstaklingum úr 62 milljörðum í yfir 120 milljarða og hjá lögaðilum um rúma 120 milljarða í 240 milljarða. Skuldir heimilanna eru alveg hrikalegar, herra forseti, og hafa þær aukist frá árinu 1995 um 144 milljarða og aukast mjög mikið dag frá degi og viku frá viku og hæstv. forsrh. telur bara að menn séu að gera sér glaðan dag, kannski dálítið umfram það sem skynsamlegt er, eins og hann orðaði það í Morgunblaðinu í morgun. (Gripið fram í: Er það í kvöld?) Ja, það skyldi þó ekki vera í kvöld? Mér finnst þetta nú vera almennt sem forsrh. er að tala um það að þjóðin sé að gera sér glaðan dag, kannski dálítið umfram það sem skynsamlegt er. Það væri fróðlegt að fá hæstv. forsrh. í umræðuna hér enda sé ég að hv. formaður fjárln. brosir bara að þessu. Ég hugsa að hann trúi hæstv. forsrh. bærilega og þeim ummælum sem hann viðhefur. (JónK: Ég trúi þessu ekki að nokkur hafi látið þetta koma fyrir sig.) Það er alveg ástæða til að fara aðeins yfir skuldastöðu heimilanna undir þessum ummælum forsrh., ekki síst þegar framsóknarmenn eru hér viðstaddir, ekki síst formaður fjárln. vegna þess að Framsfl. talaði mjög mikið um skuldastöðu heimilanna þegar hann var í stjórnarandstöðu.

Frá árinu 1995 fram á mitt þetta ár hafa skuldir heimilanna aukist um 144 milljarða kr. Þær voru á miðju þessu ári hvorki meira né minna 477 milljarðar kr. Skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna eru 144,2% eða rúmlega 44% umfram áætlaðar ráðstöfunartekjur heimilanna á þessu ári, hvorki meira né minna.

Eignir heimilanna, sem stundum er talað um í samhengi, hafa einungis aukist um tæpan helming af skuldunum eða aðeins um 62 milljarða kr. Eignirnar hafa aukist um 62 milljarða á þessu tímabili en skuldirnar um 144 milljarða. Skuldir heimilanna samsvara nú tæpum 1,8 millj. kr. á hvert einasta mannsbarn eða 7,2 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það sem er athyglisvert í þessari stöðu, sem ég held að hafi bara einu sinni gerst áður síðan 1930 eða 1940, er að eignaaukning landsmanna á þessum tíma er meiri vegna bifreiðakaupa en vegna íbúðakaupa. Forsrh. telur bara að menn séu að gera sér glaðan dag og skemmta sér kannski dálítið umfram það sem er skynsamlegt.

Ef við förum aðeins yfir eignir heimilanna og skuldastöðu þá eru eignir heimilanna um mitt þetta ár 729 milljarðar kr., þar af íbúðaeign 629 milljarðar kr. og bílaeign um 100 milljarðar kr. Það er athyglisvert eins og ég segi að af þessari 100 milljarða eignaaukningu er 62 milljarða eignaaukning frá 1995 fram á mitt þetta ár mest vegna aukinnar bifreiðaeignar eða 34 milljarðar en 28 milljarðar eru vegna íbúðaeignar. Skuldir heimilanna sem eru 44% umfram ráðstöfunartekjur samsvara rúmlega 17 mánaða ráðstöfunartekjum allra heimilanna í landinu en þær eru áætlaðar á þessu ári 341 milljarður kr.

Þessar skuldir heimilanna eru verulegt áhyggjuefni og virðast haldast í hendur við mikla útlánaaukningu innlánsstofnana sem hefur tvöfaldast eins og ég sagði frá árinu 1995. Ástæða er til að nefna það að í niðursveiflu í efnahagslífinu var vöxtur skulda heimilanna mun minni en á fimm ára tímabilinu 1988--1992, þá jukust skuldir heimilanna um 118 milljarða á móti 144 milljörðum nú í góðærinu. Þetta eru allt tölur sem eru settar fram á sambærilegu verðlagi. Ég spyr hv. formann fjárln. hvað hann segi um þessa stöðu á skuldum heimilanna. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu.

Ég býst við þegar verið er að tala um eyðsluskuldir að mikið af þessum skuldum séu til komnar vegna nauðsynja margra heimila sem eiga kannski ekki fyrir framfærslunni út mánuðinn vegna þess að launin eru svo lág í landinu. En auðvitað er mikið af þessu eyðsluskuldir, ekki síst bera tölur um mikla aukningu á bifreiðaeign þess merki. Á þessu hefur ríkissjóður fitnað. Af þessu hafa náttúrlega komið inn þessar miklu tekjur sem eru, eins og fram kom í Degi í morgun undir mynd af Jóni Kristjánssyni formanni fjárln. Alþingis, að ,,ríkissjóður veit vart aura sinna tal``.

Viðskiptahallinn hefur sem sagt frá október og þar til núna í þessari nýju spá á árinu 1999 aukist um 9 milljarða kr. Ástæða er til þess að staldra aðeins við þennan mikla viðskiptahalla.

Við sjáum það á yfirliti sem við í efh.- og viðskn. fengum frá Þjóðhagsstofnun að á árinu 1997 var viðskiptahallinn um 7,6 milljarðar, 33 milljarðar árið 1998 --- ég er með bráðabirgðatölur --- og áætlunin er 38 milljarðar 1999. Ég man ekki betur en þegar þessi ríkisstjórn tók við 1995 hafi verið jákvæður viðskiptajöfnuður. En nú stöndum við frammi fyrir því í góðærinu og þenslunni að viðskiptajöfnuðurinn er 38 milljarðar kr.

Það kom fram í efh.- og viðskn. að hvergi er að finna annan eins viðskiptahalla í löndunum sem við berum okkur saman við nema á Nýja-Sjálandi.

Þegar litið er á hreinar, erlendar langtímaskuldir hafa þær farið vaxandi en þær voru 46--47% af vergri landsframleiðslu árið 1996. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í efh.- og viðskn. stefna þær í tæplega 53% á næsta ári.

Ég þykist sannfærð um að hæstv. fjmrh. hljóti að hafa verulegar áhyggjur af hríðminnkandi þjóðhagslegum sparnaði sem hefur ekki verið minni um langt skeið og er nú 14% af landsframleiðslu. En það kom fram í efh.- og viðskn. hjá fulltrúum Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar að þjóðhagslegur sparnaður þyrfti að vera 30 milljörðum meiri eða 19% af landsframleiðslu til að sparnaður standi undir áformaðri fjárfestingu á næsta ári, hvorki meira né minna, 30 milljörðum meiri eða 19% af landsframleiðslu til að hann stæði undir áformaðri fjárfestingu á næsta ári.

Við fengum yfirlit frá Þjóðhagsstofnun um þjóðhagslegan sparnað sem hlutfall af landsframleiðslu frá 1980 til ársins 2000, næsta ár, eins og hann er áformaður. Það eru nokkuð svartar tölur sem við sjáum þar þegar við berum hann saman nú við það sem hann hefur verið. Árið 1980 var hann 24% af landsframleiðslu og í ár og næsta ár verður hann um 14%. Á þessu 20 ára tímabili hefur hann einungis tvívegis verið svipað hlutfall af landsframleiðslu og það var 1991 og 1985.

Staðan er grafalvarleg og ekkert tilefni til að vera raunverulega að gantast með það eins og mér finnst hæstv. forsrh. gera í Morgunblaðinu í dag þegar hann er að tala um að menn séu að gera sér glaðan dag og kannski dálítið umfram það sem er skynsamlegt.

Hvernig á að bregðast við þessu, herra forseti? Ég spyr hæstv. fjmrh., ég veit að hann er á mælendaskrá hér á eftir og hlýtur að koma inn á stöðuna að því er varðar þjóðhagslegan sparnað, hvort vænta megi einhverra aðgerða eða tillagna frá hæstv. ríkisstjórn til að bregðast við þessu. Mér fannst það reyndar koma fram í hv. efh.- og viðskn. að viðspyrnan með vaxtahækkun mundi ekki skila miklu við þessar aðstæður. Vissulega er mikilvægt að skila ríkissjóði með afgangi upp á 15 milljarða kr. en ég get ekki séð að ríkisstjórnin eigi nein verðlaun skilið fyrir það. Þetta hlýtur að vera tiltölulega auðvelt að gera þegar tekjuaukningin er 23 milljarðar bara á þessu ári, rúmlega 23 milljarðar kr. Núna í desember --- frá því í október --- eru tekjurnar áætlaðar tæplega fimm milljörðum meiri. 28 milljarða hefur ríkisstjórnin fengið í tekjuauka umfram það sem fjárlög þessa árs og áform næsta árs gera ráð fyrir. Þetta eru verulega miklar tekjur og ekki neitt sérstakur árangur að sjá 15 milljarða tekjuafgang á þessu ári, kannski 16--17, ef ég man töluna rétt, fyrir næsta ár.

[20:15]

Í þessu sambandi vil ég minna á þau frávik sem við erum að sjá í tekjuáætlun, þau er nokkuð alvarlegt umhugsunarefni. Við höfum séð fjárlög eftir fjárlög, ekki bara hjá þessari ríkisstjórn heldur fleirum, nokkur frávik í tekjuáætlunum. En svona stór frávik hefur maður náttúrlega aldrei séð. Ég minnti á það þegar við vorum að ræða fjáraukalögin fyrr í vetur að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við þetta og gerði athugasemd við tekjuhliðina á fjárlögunum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í fjáraukalögum fyrir árið 1998 sem samþykkt voru í lok desember 1998 var tekjuhliðin endurskoðuð um 9,4 milljarða kr. til hækkunar.``

Ég skýt því hér inn að við erum að tala um að tekjuhliðin var endurskoðuð um 23 milljarða til hækkunar. En Ríkisendurskoðun sagði í tilefni af þessu 9 milljarða fráviki orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun telur að þau umtalsverðu frávik sem fram koma í tekjuinnheimtu ríkissjóðs á árinu 1998 og undanfarin ár hljóti að beina sjónum að þeim efnahagsforsendum sem tekjuáætlun ríkissjóðs grundvallast á.``

Þar vorum við að ræða um 10 milljarða en nú erum við að ræða um 23 milljarða kr. Það hlýtur því að vera alvarlegt umhugsunarefni hve mikil frávik eru frá samþykktum fjárlögum, sem er þá raunverulega ekkert að marka, hvorki á tekjuhlið né útgjaldahlið þegar frávikin eru svona gífurlega mikil.

Ég skal reyna að fara fremur hratt yfir sögu. Það er náttúrlega ljóst að verðbólgan hefur vaxið mjög mikið og bara á sl. 12 mánuðum hefur verðbólgan verið 5,6%. Flest lönd OECD eru með lægri verðbólgu fyrir utan Tyrkland, Mexíkó, Ungverjaland og Pólland. Við erum á bekk með þeim að því er varðar verðbólguna. Þetta er nú ekki mikið til að státa sig af í efnahagsárangri. Og það er talað um að þetta sé tvöfalt eða sennilega nær þrefalt meira en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Við sjáum nokkurn útgjaldaauka hjá ríkisstjórninni núna við 3. umr. eða frá því að fjárlagafrv. var lagt fram, um 3,2 milljarða kr. Síðan erum við að sjá viðbótartekjur. Það kom fram hjá efh.- og viðskn. að meira að segja í þeim tekjuauka eru áætlaðar tekjur af frv. sem er í efh.- og viðskn. og hæstv. ráðherra hefur beðið nefndina að flytja, sem er afnám skattfrelsis af ríkispappírum, og hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin eru greinilega búin að reikna sér tekjur af, þó að nefndin hafi ekki einu sinni komist að neinni niðurstöðu um hvort hún flytur málið inn í þingið. Það er nokkuð sérstakt. Þetta er ábyggilega hið besta mál og ég vil endilega vera með hæstv. ráðherra í að loka fyrir einhverjar stórar skattaglufur. En það er tiltölulega stuttur eða enginn tími sem nefndin fær til að fjalla um áhrifin af því frv. og hvort þetta sé yfirleitt gerlegt miðað við það að þeir sem keypt hafa slíka pappíra hafa gert það í krafti þess að þeir eru auglýstir eignarskattsfrjálsir.

Þessi tekjuafgangur sem hæstv. fjmrh. og formaður fjárln. tala mikið um er til kominn að verulega leyti vegna sölu ríkisfyrirtækja, ég held að áformin séu 4,5 milljarðar af þessum 16, 17 milljörðum sem eru vegna sölu á ríkisfyrirtækjum. Og að því er varðar 15 milljarðana á þessu ári er það líka til komið vegna sölu á eignum.

Það sem var athyglisvert í umfjöllun efh.- og viðskn. var líka að fulltrúi Seðlabankans sem kom á fund nefndarinnar telur að til lengri tíma litið vanti um 20 milljarða í þjóðhagslegan sparnað og sagði að í því ljósi hefði þurft um 30 milljarða tekjuafgang á fjárlögum næsta árs eða um helmingi meira en ríkisstjórnin áformar.

Ég held að miðað við þær stærðir sem við glímum núna við í þjóðfélaginu eftir mikið góðæri og uppsveiflu, þá sé raunverulega ekki hægt að segja annað en að almennt aðhalds- og fyrirhyggjuleysi hafi einkennt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og vissulega hætta á að þeim stöðugleika sem við höfum búið við á undanförnum árum sé alvarlega ógnað. Mér finnst ekkert ósennilegt að áframhaldandi viðskiptahalli af þeirri stærðargráðu sem nú er og áfram stefnir í á næsta ári sé ákveðin tímasprengja sem ég heyrði að t.d. Seðlabankinn hefur áhyggjur af að geti grafið undan gengi krónunnar. Mér finnst þetta vera kaldar kveðjur til launafólks sem lagt hefur mikið á sig til að viðhalda stöðugleikanum í þjóðfélaginu sem nú er verulega ógnað og tímasetningin, kannski er það tilviljun að þetta er á sama tíma og kjarasamningar eru lausir og launafólk er að búa sig undir að gera kröfur um að fá meira í sitt launaumslag.

Herra forseti. Ég vil aðeins fara í nokkur atriði í fjárlagafrv. þar sem ég sá tilefni til þess að fara í ræðustól vegna umfjöllunar efh.- og viðskn. um tekjuhlið þessa frv. og nýja þjóðhagsspá. Ég vil fara yfir það sem lífeyrisþegum er ætlað í frv. Mér sýnist að engar breytingar hafi orðið á því að það sem frv. ætlar lífeyrisþegum eða hækkun á bótum lífeyrisþega á næsta ári er um 3% fyrir utan 1%, ef ég skil málið rétt, sem sett er í einhvern pott til vara. Og ef við miðum við að skammta eigi lífeyrisþegum 3% á næsta ári í hækkun á grunnlífeyri sínum og tekjutryggingu þá erum við nú ekki að tala um stórar fjárhæðir. Þetta er 1.400 kr. hækkun á mánuði.

Það er kannski skrýtið miðað við þá ræðu sem ég hélt áðan að tala um að auka eigi útgjöldin meira með hækkun á bótum lífeyrisþega en ég ætla nú samt að gera það. Það sem ég er að gagnrýna þegar ég tala um útgjaldaþenslu er forgangurinn sem ríkisstjórnin hefur varðandi útgjöldin. Ég hefði haldið að tími væri kominn til þess að lífeyrisþegar, öryrkjarnir og ellilífeyrisþegarnir væru í forgangi hjá ríkisstjórninni. Við ræddum það fyrr í dag hvernig farið er með þann sjóð sem öryrkjar treysta mikið á, Framkvæmdasjóð fatlaðra, en á þessu og næsta ári á að skera niður lögbundnar tekjur hans um 700 millj. kr. Við þekkjum hvernig farið var með lífeyrisþega á síðasta kjörtímabili þegar þeir fengu miklu minna en aðrir af því að kjarabætur þeirra hafa hangið saman við hækkun á neysluvísitölu sem hefur hækkað miklu minna á umliðnu kjörtímabili en launavísitalan, og mér sýnist að þar sé engin breyting á.

Mér finnst ástæða til að nefna af þessu tilefni, og hef ég haldið því nokkuð oft til haga í umræðum, að það er mjög sérkennilegt að lífeyrisþegar borgi 40% skatt af lífeyrisgreiðslum sínum sem þeir fá úr lífeyrissjóði meðan þeir sem eiga fjármagn eða hafa fjármagnstekjur borga einungis 10%. Því að reiknað hefur verið út að 2/3 af þessum greiðslum sem ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar fá út úr lífeyrissjóðunum séu fjármagnstekjur, það séu vextir og verðbætur. En aðrir sem eiga fjármagnseignir borga einungis 10% í fjármagnstekjuskatt.

Ég sé að Félag eldri borgara hefur óskað eftir fundi með fjmrh. um greiðslu tekjuskatts af vaxtahluta lífeyris. Þeir tefla fram lögfræðilegri álitsgerð Jónasar Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns og Sigurðar Líndals prófessors í þessu efni og telja að eins og þessum greiðslum sé háttað í skatti sé það brot á stjórnarskránni. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að fjárlagafrv. boðar nú lífeyrisþegum hvað á að skammta þeim á næsta ári, hver sé skoðun hans á þessu áliti Félags eldri borgara. Er hann því sammála og hefur hann eitthvað skoðað málið, hvort lífeyrisgreiðslurnar sem ellilífeyrisþegar fá úr lífeyrissjóði eigi frekar að skattleggja eins og fjármagnstekjuskatt fremur en tekjuskatt? Ég vænti þess að ráðherrann hafi einhverja skoðun á málinu og vil spyrja hann um það í þessari umræðu.

Síðan á að halda áfram að skerða persónuafsláttinn og skattfrelsismörkin. Ég veit að ASÍ hefur í tengslum við annað frv., sem verður hér væntanlega til umræðu á morgun, gert miklar athugasemdir við meðferðina á skattleysismörkunum og persónuafslættinum á undanförnum árum og segir í áliti til efh.- og viðskn., tengt öðru skattamáli, að sú aðferð sem notuð hafi verið síðustu árin til að fjármagna skattbreytingar sé að láta skattleysismörkin síga miðað við launaþróun í landinu og við það aukist tekjur ríkissjóðs. Og þeir segja að í fjárlagafrv. fyrir árið 2000 sé einungis gert ráð fyrir 2,5% hækkun persónuafsláttar á meðan gert er ráð fyrir að laun hækki um 4--5%. Það virðist engin breyting eiga að verða á því hjá hæstv. ríkisstjórn.

Það væri fróðlegt, af því að hæstv. ráðherra kemur væntanlega hér á eftir, að spyrja hann hvers við megum vænta varðandi skattalagabreytingar. Er eitthvað á döfinni hjá ríkisstjórninni á næsta ári varðandi skattalagabreytingar sem snúa að einstaklingum, t.d. að draga úr tekjutengingum, svo ekki sé minnst á barnabætur? Vegna þess að í fjárlagafrv. er ljóst að enn á að skerða barnabætur og hæstv. ráðherra bendir væntanlega á að það sé afleiðing af hærri tekjum hjá fólki o.s.frv. Það eru lítil rök í málinu vegna þess að hér höfum við farið yfir velferðarkerfið og var það gert rækilega í síðustu viku eða þar áður í tengslum við þá úttekt sem Tryggingastofnun beitti sér fyrir um ,,íslensku leiðina``. Þar kom náttúrlega í ljós að við erum ekki nema hálfdrættingar á við Norðurlandaþjóðirnar að því er varðar velferðarkerfið og ætla ég ekkert að fara að endurtaka þá umræðu sem þar varð. En þar kemur líka fram að mjög sjaldgæft er að barnabætur séu tekjutengdar í löndum OECD. Og skýringin á því að þær eru væntanlega að lækka hér á fjárlögum er þessi tekjutenging.

Barnabæturnar hafa lækkað frá 1991 um hvorki meira né minna en 1.200 millj. kr. Þeim sem fá barnabætur hefur náttúrlega fjölgað um einhverja tugi þúsunda. Ég hygg að barnabætur og greiðslur barnabóta sé vænlegasta aðgerðin sem við förum í til að styrkja stoðir fjölskyldunnar, eins og stendur svo fallega í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Það er ýmislegt annað sem hægt væri að ræða í tengslum við þessa umræðu en margir eru á mælendaskrá og ég vil ekki verða til þess að tefja umræðuna mikið. Ég vil þó vekja athygli á stöðu einstæðra foreldra. Nýlega kom skýrsla um stöðu þeirra til þingsins og ég held að ljóst sé, herra forseti, og ástæða til að halda því til haga að staða einstæðra foreldra er mjög slæm. Lítið hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bæta stöðu einstæðra foreldra í því góðæri sem við höfum búið við. Það er kannski ekki mikils að vænta á næstunni ef við erum að fara að sigla niður í einhverja mikla niðursveiflu, efnahagslægð og vaxandi verðbólgu. Það virðast því ekki vera mjög bjartir tímar fram undan hjá einstæðum foreldrum.

[20:30]

Þó við tölum fyrir aðhaldi í fjárlögum höfum við þó leyft okkur, ég ætla ekkert að ræða það mikið hér í tengslum við annað frv., að flytja litla brtt. til að bæta stöðu einstæðra foreldra sem kostar 45 millj. kr. sem ég held að menn ættu aðeins að huga að hvort ekki væri rétt að gera vegna þess að það bætir stöðu um 2.000 einstæðra foreldra ef sú leið sem við tölum fyrir yrði farin og kostar ekki nema 45 millj. kr. Það mundi ekkert standa á okkur, herra forseti, að benda á sparnað eða tekjuöflunarleiðir til þess að standa á móti eins og við raunar gerum núna við fjárlagaafgreiðsluna, 3. umr. fjárlaga, þeim útgjaldaauka sem við flytjum, sem tengist aðallega og raunverulega eingöngu, lífeyrisþegum. Við bendum á móti á í fjárhagstillögum okkar hvernig eigi að afla tekna í þær, hvernig eigi að spara og skilum, ef ég man rétt, einhverjum viðbótarafgangi engu að síður þó farið yrði í að bæta kjör lífeyrisþeganna eins og við leggjum til.

Það er nefnilega forgangurinn sem skiptir miklu máli. Bent hefur verið á að það er svolítil þensla hjá t.d. aðalskrifstofum ráðuneytanna eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur bent á. Hún er töluvert mikil og það er ekki hægt að segja annað, herra forseti, þegar við erum að tala um allt uppi nálægt 20% hækkun milli fjárlaganna 1999 og fjárlagafrv. fyrir árið 2000. Ég hef ekki borið það saman við einhverjar brtt. sem liggja fyrir en þetta voru tölur eins og lágu fyrir þegar fjárlagafrv. var lagt fram.

Síðan eru það húsnæðismálin og skal það verða síðasti málaflokkurinn sem ég fjalla um við þessa umræðu. Hæstv. ráðherra ræddi það fyrr í vetur að hann hefði nokkrar áhyggjur af útgáfu húsbréfa. Ég hygg að það sé alveg tilefni til þess og við höfum farið yfir það að ýmsir hafa áhyggjur af að greiðslumatið sé allt of rúmt. En þegar við skoðum þetta fjárlagafrv. að því er varðar húsnæðismálin spyr ég hæstv. ráðherra hvort það þýði ekki það sem hér er talað um varðandi Íbúðalánasjóðinn, að það eigi að minnka ríkisframlagið, sem var 180 milljónir á þessu ári, niður í 100 milljónir, að hægt sé að búast við vaxtahækkunum að því er varðar lán til leiguíbúða. Þessar 180 milljónir voru notaðar til að greiða niður lán hjá leiguíbúðum og það var bara hægt að veita lán til 120 leiguíbúða með 1% vöxtum á þessu ári, aðrar lánveitingar til leiguíbúða voru ýmist á 2,4% vöxtum eða 3,2% vöxtum. Nú er talað um að fjölga íbúðunum og það eigi að lána til 240--280 leiguíbúða, ég man ekki nákvæmlega töluna, en ríkisframlagið á að minnka um 100 milljónir. Ég spyr ráðherrann: Er hægt að draga aðra ályktun af því en að vaxtakjör á leiguíbúðum muni fara hækkandi á næsta ári? Ég get ekki séð það þegar á að fjölga íbúðunum sem veita á lán til en draga úr ríkisframlaginu annað en að það þýði vaxtahækkun og spyr ég um skilning hæstv. ráðherra á því.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Það var ekki hugmyndin að flytja langt mál þó að öll efni standi til að ræða ítarlega fjárlagafrv. nú við 3. umr. og þær horfur sem eru fram undan í efnahagsmálum sem eru nokkuð skuggalegar. Við hljótum öll bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að deila áhyggjum af því að efnahagshorfurnar eru nokkuð skuggalegar, bæði að því er varðar verðbólguþróunina og ekki síður viðskiptahallann. Ég hef verulegar áhyggjur af því, eins og ég sagði í upphafi máls míns, hvert stefnir varðandi skuldir heimilanna og þá miklu útlánaþenslu sem er í öllu hagkerfinu. Þetta eru áhyggjur sem við hljótum að deila saman.

Ég hef lagt spurningu fyrir hæstv. ráðherra sem tengist þjóðhagslega sparnaðinum sem hefur farið mjög minnkandi eins og ég gat um í máli mínu og ég spurði ráðherrann um viðbrögð hans við því hvort eitthvað væri á döfinni hjá ríkisstjórninni varðandi það að taka á þeirri ofþenslu sem er í hagkerfinu. Ég beindi ákveðinni spurningu til hans varðandi vaxtakjörin á leiguíbúðunum og ekki síst hvort hann sé tilbúinn til að lýsa skoðun sinni á því sem fram kemur hjá eldri borgurum að því er varðar skattlagningu á greiðslur úr lífeyrissjóðum.