Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 20:40:26 (3020)

1999-12-15 20:40:26# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[20:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það geti ekki komið þingmanninum á óvart að ég hafi þá skoðun að skattlagningin eins og hún er í dag standist stjórnarskrána því ef ég hefði ekki þá skoðun gæti ég ekki staðið hér sem fjmrh. og borið ábyrgð á þeirri skattheimtu. Það er augljóst mál. Sú skattheimta er að sjálfsögðu fyllilega í samræmi við landslög og eftir því sem fróðustu menn á því sviði í þjónustu ríkisins hafa talið, auðvitað einnig í samræmi við stjórnarskrána.

Hins vegar er þetta auðvitað ekki hluti af fjárlögum sem er verið að ræða við 3. umr. Þetta er dæmi um mál sem er tekið upp í fjárlagaumræðunni þó að það sé alls ekkert hluti af þessu frv. Reyndar eru mörg fleiri dæmi um slík mál í umræðunni, það er eins og gengur hér á Alþingi, fólk talar um það sem því dettur í hug þó verið sé að ræða eitthvert tiltekið þingmál.

Þetta er mál sem hefur ítrekað borið á góma í samtölum fulltrúa Félags eldri borgara og þeirra samtaka við fulltrúa ríkisvaldsins en ég hyggst engu svara frekar um það hér við þetta tækifæri hvort þarna er einhver flötur á því að gera breytingar. Ég veit það ekki. Við höfum verið að velta því fyrir okkur. Ég bendi á þessa annmarka og þessar aðrar hliðar á málinu sem koma að sjálfsögðu ekki fram í málflutningi þeirra sem rituðu mér þetta bréf sem gera það að verkum að málið er ekki líkt því eins einfalt og þeir láta í veðri vaka.

Svo vek ég athygli á því að þetta mál er komið að því stigi af þeirra hálfu að vera pólitískt umfjöllunarefni yfir í það að verða jafnvel lögfræðilegt ágreiningsefni og það breytir auðvitað eðli málsins.