Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 20:44:37 (3022)

1999-12-15 20:44:37# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[20:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það dregur að því að afgreiðslu fjárlagafrv. á Alþingi fari að ljúka og að niðurstaðan liggi ljós fyrir um fjárlög ríkisins árið 2000. Við höfum að undanförnu fjallað um fjáraukalögin fyrir árið 1999 samhliða frv. til fjárlaga fyrir næsta ár og búið er að lögfest fjáraukalögin fyrir árið í ár. Ef allt fer fram sem horfir verða fjárlögin orðin að lögum á morgun.

[20:45]

Mörg orð hafa verið látin falla í umræðum um bæði þessi mál. Af umræðunni mætti halda að í mikið óefni væri komið í ríkisfjármálum og að óstjórn ríkti í þeim efnum. ,,Gríðarleg lausatök`` er vinsælt að segja um stöðu mála hér.

Eigi að síður er ríkissjóður á þessu ári og næsta ári að skila meiri afgangi en nokkru sinni áður í sögunni, hvort heldur litið er á tölurnar sjálfar, milljarðana sem verið er að skila í afgang eða hlutfall af landsframleiðslu. Í ár er afgangurinn áætlaður u.þ.b. 15 milljarðar kr. Það er 12,5 milljörðum meira en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það er að sjálfsögðu í og með vegna þess að sala ríkiseigna hefur verið mun meiri en við reiknuðum með á þessu ári þegar fjárlögin voru afgreidd. Tekju- og veltubreytingar í þjóðfélaginu hafa einnig verið meiri en ráð var fyrir gert.

Mikið er gert úr því að tekjur af veltusköttum hafi aukist. En tekjur af tekjusköttum hafa líka aukist verulega, bæði af tekjusköttum einstaklinga og lögaðila. Það er auðvitað til marks um bætta afkomu fyrirtækja og einstaklinga.

En að því er árið 2000 varðar þá hefur nú tekist, annað árið í röð og það mun vera einsdæmi svo langt sem elstu menn muna, að skila fjárlögunum við 3. umr. með meiri afgangi en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir í upphafi. Í fyrra munaði þar 500 millj. kr., nú munar þar 1,7 milljörðum kr. þrátt fyrir að tekið hafi verið tillit til þeirra útgjalda sem óhjákvæmileg voru talin í heilbrigðiskerfinu. Það var ákveðið, eins og mönnum hefur verið tíðrætt um, að auka verulega framlög til heilbrigðiskerfisins á þessu ári. Þau útgjöld flytjast síðan að sjálfsögðu áfram yfir á árið 2000 vegna þess að umfangið hefur aukist, aukið umfang hefur verið viðurkennt og bætt við grunninn eins og það er kallað. Ég hef ekki orðið var við að menn hafi almennt mótmælt því að sú aukning í heilbrigðiskerfinu hafi verið nauðsynleg. Hvernig var hún til komin? Hún var tilkomin vegna þess að við heilbrrh. óskuðum eftir að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á stöðu heilbrigðisstofnana. Þegar sú úttekt lá fyrir og búið var að sannreyna hver staðan var þá var ákveðið að horfast í augu við þær staðreyndir, greiða upp þann halla sem kominn var fram á þessu ári og gera ráð fyrir sambærilegu umfangi á næsta ári.

Það er talað um að þetta valdi mikilli þenslu. Það er auðvitað ekki rétt vegna þess að þessi útgjöld eru þegar til fallin. Það er búið að eyða þessum peningum. Það á að vísu eftir að borga einhverja af reikningunum á þessu ári. Hér er sem sagt um það að ræða að búið er að afmarka umfang rekstrarins á heilbrigðisstofnununum upp á nýtt. Nú er auðvitað mikilvægast af öllu að tryggja að þessi rammi haldi á þessu ári. Hann á auðvitað að geta gert það, það eru ekki margir óvissuþættir í rekstrinum á þessu ári. Kjarasamningar eru til að mynda ekki lausir fyrr en seinni hluta ársins og munu ekki hafa áhrif fyrr en þar að kemur. Áhrifa þeirra mun gæta tvo, þrjá mánuði af næsta ári í flestum tilfellum, þ.e. þegar um er að ræða samtök opinberra starfsmanna. Þó má vera að félagsmenn hinna almennu verkalýðsfélaga sem starfa hjá ríkinu verði búnir að semja eitthvað fyrr. Þess vegna á að vera hægt, og á það verður auðvitað lögð mjög rík áhersla, að halda rekstri stofnana ríkisins, ekki bara á heilbrigðissviðinu heldur einnig annarra, innan þess ramma sem markaður er í þessum fjárlögum.

En hver er þá sú mikla útgjaldaaukning sem hér er mikið talað um? Menn fara hér mikinn í fordæmingu sinni yfir öllum þessu auknu útgjöldum um leið og þeir leggja fram alls kyns tillögur um aukin útgjöld á öðrum sviðum. Hver er útgjaldaaukningin á milli áranna 1999 og 2000 miðað við það sem nú liggur fyrir? Hún er 400 millj. kr. í dæmi sem er upp á 193 milljarða. Það liggur fyrir að fjáraukalögin voru afgreidd hér í morgun með útgjöldum upp á 192,8 milljarða. Niðurstöðutala fjárlaganna fyrir næsta ár útgjaldamegin er 193,2 milljarða. Þetta er útgjaldaaukningin sem menn hafa talað um þegar búið er að taka tillit til þess sem talið var óhjákvæmilegt og ég hef ekki orðið var við ágreining um, þ.e. umfangs stofnana heilbrigðiskerfisins.

Hið mikilvæga í þessu er að afgangur ríkisins af rekstrinum fer vaxandi. Hann verður meiri en nokkru sinni fyrr, eins og ég sagði áðan, á næsta ári, 16,7 milljarðar. Lánsfjárafgangurinn hjá ríkinu, bæði í ár og á næsta ári, nemur u.þ.b. 22 milljörðum kr. hvort ár um sig og er þar með kominn verulega yfir 60 milljarða á þriggja ára tímabili, frá 1998--2000. Lánsfjárafgangurinn er það handbæra fé, ef svo mætti segja, sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir sínar, borga upp lán eða styrkja stöðu sína að öðru leyti.

Þá vil ég koma að því sem menn hafa haldið fram um þau mál. Þar er á ferðinni einhver fjarstæðukenndur misskilningur, m.a. hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni bæði í gær og í dag, að ríkissjóður sé kominn í sjálfheldu með að koma lánsfjárafgangi sínum fyrir og upp sé komin pattstaða í þeim efnum. Þetta er auðvitað fjarstæða og getur aldrei verið annað en fjarstæða. Jafnvel þó að það standi í minnihlutaáliti 2. minni hluta fjárln. að peningar liggi vaxtalaust á reikningum í ríkissjóði, sem er rangt, þá getur það ekki verið svo að ríkissjóður geti ekki lagt peningana sína inn í Seðlabankann eins og honum ber reyndar skylda til ef hann notar þá ekki í að borga upp lán sín eða aðra sambærilega hluti.

Ég ætla aðeins að fara yfir þetta mál vegna þess að miklu skiptir að hér sé rétt með farið. Við höfum lagt mikla áherslu á að borga upp lán ríkisins, nota lánsfjárafganginn til þess. Við höfum ekki sagt að aðeins eigi að borga upp erlend lán. Auðvitað væri mjög æskilegt að beina athyglinni fyrst og fremst að erlendu lánunum en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að borga upp af erlendum lánum vegna þess að það er ekki verjandi að taka áhættu með því að leggja of mikið á gjaldeyrisforða landsmanna, færa hann niður fyrir eðlileg varúðarmörk. Þess vegna m.a. höfum við farið varlega í að borga upp erlend lán. Við höfum ekki viljað taka áhættu með gjaldeyrisforðann og höfum m.a. framlengt lán sem fallið hafa á þessu ári, í það minnsta eitt lán, með öðru sambærilegu erlendu láni. Það kann líka að vera skynsamleg stefna almennt séð að vekja annað slagið athygli á nafni Íslands úti á erlendum lánsfjármörkuðum til þess að tryggja lánstraust og stöðu landsins erlendis. Lánstraust íslenska ríkisins er að sjálfsögðu haft til viðmiðunar gagnvart lánstrausti annarra íslenskra aðila, hvort sem það eru fyrirtæki eða sveitarfélög eða aðrir. Við höfum því lagt áherslu á að greiða niður skuldirnar. Það hefur auðvitað verið markmið að greiða niður erlendar skuldir en það hefur verið þessum takmörkunum háð sem ég var að lýsa.

Þá kemur að innlendu lánunum. Það hefur líka verið gengið rösklega til verks í að greiða niður innlend lán. En menn verða auðvitað að gá að því að innlend lán ríkissjóðs hafa verið tekin með ákveðnum skilmálum. Þar eiga bæði lántakandi og lánveitandi sinn rétt. Það er ekki hægt að ganga að fólki beint og gera því skylt að taka við endurgreiðslu á slíku láni nema með gagnkvæmum samningi. Þess vegna þarf að fara skipulega í þessi mál og með aðferðum sem búa eigendur bréfa ríkissjóðs undir að eiga slík viðskipti. Lánasýsla ríkisins annast þennan þátt málsins. Hún hefur m.a. beitt sér fyrir nýjungum á þessu sviði, til að mynda með svokölluðum öfugum útboðum. Í stað þess að bjóða fram skuldabréf til sölu er boðist til að kaupa þau skuldabréf sem ríkið hefur áður selt. Þessi aðferð hefur auðvitað skilað ákveðnum árangri. Það er búið að kaupa upp fullt af skuldum með þessum hætti, með sama hætti og verið er að gera vestur í Bandaríkjunum þar sem ríkissjóðurinn er í svipaðri stöðu og hjá okkur. Þar er mjög rúm lausafjárstaða að þessu leyti. Þetta höfum við verið að gera að vissu marki. En það er auðvitað ekki þar með sagt að við eigum að verja öllum lánsfjárafgangnum í þessa starfsemi. Það er auðvitað ekki endilega markmiðið að halda áfram á þessari braut án þess að marka sér heildarstefnu í málinu.

Hvað er þá annað til ráða? Hvað á þá annað að gera við afganginn? Ég hef orðað það svo að við eigum að styrkja stöðu ríkissjóðs með því að greiða niður skuldir eða styrkja hana með öðrum hætti. Ég hef beitt mér fyrir því á þessu ári að lánsfjárafgangnum væri m.a. varið til að borga inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, B-deild. Í því tilviki er búið að reikna nákvæmlega út og hægt að gera sér grein fyrir því að B-deildin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga lenda í sjóðþurrð eftir 10--12 ár ef ekki verður að gert. Það þýddi að ríkissjóður mundi á þeim tíma, vegna þess að hann er þar í bakábyrgð, þurfa að greiða allar eftirlaunagreiðslur þessara sjóða beint sjálfur. Það verður ekkert fé eftir í þessum sjóðum. Þess vegna liggur í augum uppi að skynsamlegt er að huga að þessu máli strax. Þó svo að stjórnmálamenn séu sakaðir um að hugsa í kjörtímabilum, í fjögurra ára tímabilum, er verið að fást við vanda sem ekki kemur upp fyrr en eftir tólf ár eða svo. Auðvitað er skynsamlegt að huga að því að nota hluta af þessum lánsfjárafgangi til að bregðast við þessum vanda og helst þannig að hann verði úr sögunni og skelli aldrei á. Þetta er eitt dæmi um að styrkja stöðu ríkissjóðs að öðru leyti, koma í veg fyrir að hann lendi í hrikalegum erfiðleikum eftir þennan tíma.

Þrátt fyrir þetta kemur hingað þingmaður við þessa umræðu og lýkur ræðu sinni á því að segja að þessi ríkisstjórn hugsi bara sem svo: Er á meðan er, við látum skeika að sköpuðu, skítt með framtíðina. Þetta sagði þingmaðurinn, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson.

Ég hygg að ég hafi nefnt mjög ákveðið dæmi um að hér er verið að huga að framtíðinni. Hér er verið að huga að því að uppfylla skuldbindingar strax sem reyndar mundu ekki falla fyrr en eftir 10--12 ár. Þá yrði það þannig, ef ekkert væri að gert, að ríkissjóður mundi þurfa að borga 10--12 milljarða á ári fyrstu árin, síðan 15 milljarða. Síðan má guð vita hvað borga þyrfti eftir það.

[21:00]

En með því að ráðstafa hluta af lánsfjárafganginum, sem er ekki flokkaður sem bein útgjöld ríkissjóðs með þessum hætti, erum við að koma í veg fyrir þennan vanda, búa í haginn, tryggja að það fé sem rennur í sjóðinn fari til ávöxtunar og geri það að verkum að það tekur tiltölulega fá ár að greiða úr þessum vanda þó að hann sé metinn upp á 55 milljarða í dag.

Þarna er þriðji liðurinn, þriðji þátturinn fyrir utan niðurgreiðslur erlendra skulda og innlendra skulda sem hægt er að verja lánsfjárafgangi ríkissjóðs til.

Þar við bætist að sjálfsögðu að ekkert óeðlilegt er við það að ríkissjóður varðveiti hluta af afgangi sínum í viðskiptabanka sínum sem lögum samkvæmt er Seðlabanki Íslands. Auðvitað liggja þeir peningar þar á umsömdum vöxtum, ekki á núllvöxtum eins og vinstri grænir halda fram í nál. sínu heldur á umsömdum vöxtum og ávaxta sig þar áreiðanlega bærilega. En þeir eru þá ekki líka í umferð, það fjármagn er þá ekki í umferð. Því var haldið fram að það væri mjög vont vegna þess að þá væru þeir peningar ekki að ávaxta sig einhvers staðar. En þeir eru auðvitað að ávaxta sig í bankanum.

Þá kem ég að því sem hefur líka verið haldið fram í umræðunni, að við værum að gera mistök í sambandi við peningamagn í umferð. Ég ætla fyrst að svara spurningu þingmannsins um það á hvaða vöxtum þessir peningar liggja þarna inni á reikningum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði á hvaða vöxtum þessir peningar væru. Ég man það því miður ekki en það fer eftir því hvað þeir liggja lengi inni, hvað um er að ræða stórar upphæðir og fleiri atriði sem hægt er að semja um. Við getum gáð að því fyrir atkvæðagreiðsluna í fyrramálið, hv. þm., þegar Seðlabankinn verður búinn að opna skrifstofur sínar.

Við höfum verið sakaðir um það í þessari umræðu, ef maður vill reyna að halda til haga því sem málefnalegt hefur mátt teljast, að við værum að auka peningamagn í umferð með óábyrgum hætti með því að greiða upp skuldir ríkissjóðs innan lands. Þetta er ekki rétt. Ég skal fara aðeins yfir það.

Ég vil byrja á því að segja að auðvitað væri best í þessum skilningi að taka peningana úr umferð með því að borga niður lán í útlöndum. En það er því miður ekki alltaf færi á því vegna þeirra ástæðna sem ég hef þegar tilgreint. (KLM: Er það ekki sjálfhelda?) Nei, þetta innskot, herra forseti, er til marks um það að þingmaðurinn hefur ekki fylgst vel með því sem ég er að segja. Alls ekki. Ég er búinn að útskýra hvaða þrjú atriði önnur en uppgreiðsla erlendra lána eru möguleg og þá er sagt: Er það ekki sjálfhelda? Nei, við höfum þrjá aðra möguleika.

En ég ætla að velta því fyrir mér hvort við erum að gera mistök í sambandi við hið svokallaða peningamagn í umferð. Reyndar er mjög athyglisvert að það fyrirbæri, peningamagn í umferð, er orðið mjög vinsælt umræðuefni sem margir kenndu eingöngu við Milton Friedman og menn sem aðhylltust peningamálakenningar hans á sínum tíma. Auðvitað er það samt svo að peningamagn í umferð skiptir miklu máli í sambandi við stjórn efnahagsmála.

Því er haldið fram að með því að borga upp innlend lán séum við að auka peningamagn í umferð. Það er ekki rétt. Þegar það gerist að ríkissjóður ráðstafar hluta af lánsfjárafgangi sínum með þeim hætti er hann að gera hvorugt, hann er hvorki að auka peningamagnið né draga úr því. Það er hlutlaus aðgerð. Það mætti halda því fram að hann ætti frekar að draga það úr umferð, já, ég er búinn að svara því játandi, hann ætti frekar að gera það. Það getur hann gert með því að borga erlend lán eða með því að leggja peningana inn í bankann en hann er ekki að auka peningamagnið í umferð.

Ef Seðlabanki Íslands væri að prenta peninga og kaupa upp skuldabréf ríkissjóðs væri peningamagnið að aukast en ekki ef ríkissjóður er að býtta á því sem hann fær í skatttekjur með því að kaupa upp slík bréf. Hér er bara misskilningur á ferðinni og sem hefur verið á fleygiferð í umræðunni án þess að menn hafi kannski haft alveg yfirsýn yfir þetta mál. En þetta taldi ég óhjákvæmilegt, herra forseti, að nefna vegna þess að manni hálfblöskrar stundum það sem fram kemur í umræðunni um þetta mál. Ríkissjóður hefur alltaf það úrræði að leggja peninga sína inn í Seðlabankann og þess vegna getur ekki orðið sjálfhelda í þessu efni.

Minnst hefur verið á mörg mál í umræðunni. Ég nefndi það í andsvari fyrr í dag, og ætla ekki að koma að því aftur, hvernig ríkisstjórnin hyggst herða eftirlit með framkvæmd fjárlaga með því að gefa út einhvers konar verklagsreglur í þeim efnum sem lagðar verða fyrir ríkisstjórn og síðan sendar viðkomandi aðilum með viðeigandi hætti og kynntar Alþingi o.s.frv. Ég lét þess getið að auðvitað eru fullnægjandi heimildir í fjárreiðulögum og í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna til að vinna að slíku og þarf kannski ekki mjög miklar viðbótarheimildir. En auðvitað kemur til greina að breyta lögunum ef menn teldu að nauðsynlegt væri að leita eftir lagabreytingum hér á Alþingi.

Það hefur líka verið farið yfir einstaka þætti í t.d. heilbrigðismálum og spurningum beint til mín í sambandi við lyfjamál og þess háttar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði mig um lyfjamálin og ég tel reyndar að þeirri spurningu sé beint að röngu stjórnvaldi, það eigi að beina því til heilbrrh. En við erum auðvitað í samstarfi um þessi mál og það er alveg ljóst og kemur fram í fjárlagafrv. að ætlunin er að reyna að ná þar fram heilmiklum sparnaði. Þar er hins vegar við rammt að rjá eins og kunnugt er, það er mjög mikil sjálfvirk aukning í þeim útgjaldaflokki og hefur reynst mjög erfitt að henda reiður á og ná utan öll þau útgjöld.

Síðan hafa menn verið að gæla við það að sá vandi sem kom upp í heilbrigðiskerfinu hafi verið af ákveðnum toga spunninn og verið að henda því á milli sín, vitna í bréf sem hafa gengið á milli ráðuneyta og þess háttar frá því í maímánuði sl. Ekkert af þessu skiptir nokkru einasta máli. Það liggur alveg fyrir að fjmrn. og heilbbrn. hafa í sameiningu verið að vinna að þessum hlutum. Það er heill bunki af bréfum sem hafa gengið á milli um framkvæmd fjárlaga á árinu 1999. Við höfum gert athugasemdir okkar í fjmrn., þau hafa gert sínar í heilbrrn. og við höfum reynt að finna sameiginlegar lausnir eins og eðlilegt er og menn gera í stjórnarsamstarfi og ríkisstjórnum. Það er engan feitan gölt að flá í því að vera að reyna að finna einhverja sökudólga til að kenna um í því efni.

En mig langar að segja nokkur orð, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu um það sem kom áðan fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um frávik í tekjuáætlun. Þingmanninum fannst mjög slæmt hversu tekjuáætlunin væri oft ónákvæm, þ.e. hún reyndist ekki í samræmi við endanlega útkomu. (Gripið fram í.) Já, ég hef áður fjallað um það atriði hér, ég tel ekki að athugasemdir Ríkisendurskoðunar um þetta atriði hafi við rök að styðjast.

Hvernig eru tekjurnar árið 1999 til að mynda komnar til? Hvernig gátum við séð það fyrir í desember fyrir ári að það yrðu t.d. svona miklar tekjur af sölu ríkiseigna? Það var ekki hægt vegna þess að það var ekki búið að taka ákvarðanir um það. Menn verða bara að sætta sig við það að tekjuáætlunin er ævinlega heilmikilli óvissu háð. Hún byggir ekkert bara á framreikningi eða forsendum sem liggja nákvæmlega fyrir, hún byggir á þeirri óvissu sem fylgir þjóðhagsspánni, sem er vissulega mikilli óvissu undirorpin, og allri þeirri óvissu sem fylgir því að menn vita ekki hvernig tekjur breytast, velta breytist eða eyðslumunstur í þjóðfélaginu kann að breytast. Það er því lítið við því að gera, hv. þm., þó að vissulega væri gott ef menn gætu gert þetta betur.

Ég vil hins vegar taka undir með þingmanninum að því er varðar vangaveltur hennar og áhyggjur af því að sparnaður væri of lítill í þjóðfélaginu. Það er rétt, þjóðhagslegur sparnaður er of lítill á Íslandi. Ríkisvaldið er núna með þessum fjárlögum að leggja sitt af mörkum til þess að auka hann. En það eru fleiri sem eyða peningum á Íslandi en ríkið. Vandamálið er að sjálfsögðu það að einkaneyslan er sennilega of mikil á Íslandi miðað við þjóðhagsforsendur og það er áreiðanlega það sem forsrh. átti við í blaðaviðtali í morgun sem vitnað var til að mönnum hætti til að ganga fullgeyst um gleðinnar dyr í þessum efnum. Við vitum alveg að tilhneiging Íslendinga til að eyða peningum er mjög mikil. Auðvitað er mjög brýnt að ná um það samstarfi í þjóðfélaginu að efla þjóðhagslegan sparnað, gera það eftirsóknarvert að spara.

Stærsta uppspretta sparnaðar á Íslandi er í lífeyrissjóðunum. Þeir hafa eins og kunnugt er gríðarlega öflugan fjárhag, mikið ráðstöðfunarfé, þeir eiga miklar eignir. En það er ekki nóg, það þarf líka að tryggja að einstaklingar spari og auðvitað eru til möguleikar í þeim efnum eins og viðbótarlífeyrissparnaðurinn sem við lögfestum á síðasta ári, sem er fyrir utan það að vera liður í því að efla þjóðhagslegan sparnað mjög skynsamlegt fyrirbæri fyrir hvern og einn. En það vantar að menn taki við sér í nógu ríkum mæli til þess að það sé farið að telja í þessum þjóðhagsútreikningum. Þarna er ég sammála þingmanninum og við eigum að reyna að leggjast á eitt um það að efla þessa þjóðhagslegu stærð, sparnaðinn.

Herra forseti. Ég hyggst ekki flytja öllu lengra mál. Auðvitað er margt í þessum efnum sem mætti fara betur yfir, það er hægt að flytja langar ræður um fjárlög ríkisins eins og gert er við allar umræðurnar í þinginu og það er eðlilegt að menn ræði þessi mál í þaula og gefi þeim gaum. Það er líka eðlilegt að menn velti til að mynda fyrir sér hinni nýju þjóðhagsáætlun. Ég tel að hún sé því miður neikvæð að því er varðar spána um viðskiptajöfnuð og verðbólguþróun en ég tel að fjárlögin sem við erum að afgreiða hér og fjáraukalögin sem við afgreiddum í morgun séu liður í viðleitni til þess að snúa þessari þróun við. Það verður ekki gengið öllu lengra af hálfu ríkisins að því er varðar fjárlögin en hér er gert og ég hef ekki orðið var við raunhæfar tillögur um að auka við þann afgang sem hér er niðurstaðan, 16,7 milljarða, í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag, herra forseti, þó að margt hafi borið á góma.