Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:17:10 (3026)

1999-12-15 21:17:10# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Fimmti kosturinn felst í fjórða kostinum, þ.e. hægt er að ráðstafa peningum sem liggja í Seðlabankanum síðar meir til annarra þátta sem ekki eru þensluvaldandi og geta jafnvel verið eins skiptis útgjöld á sviði samgangna eða slíkra mála.

En ég verð að taka undir að það er ekki hægt að horfa bara á afkomu ríkissjóðs. Afkoma ríkissjóðs er einn þáttur, ein efnahagsleg stærð. Afkoma hins opinbera í heild sinni er önnur stærð. Hún skiptir vissulega líka máli. Þann samanburð sjáum við mjög oft í alþjóðlegum töflum, afkomu hins opinbera í heild sinni.

Við höfum komið til móts við sveitarfélögin við þessa afgreiðslu í dag að því er varðar fjáraukalög. Ég held hins vegar að við eigum að hætta að deila um það efni þar til tekjustofnanefndin sem er að störfum hefur lokið vinnu sinni. Ég geri fastlega ráð fyrir því að það þurfi að gera ráðstafanir til að auka tekjur sveitarfélaganna. Auðvitað þurfa þau að efla sinn hag og koma sér út úr hallarekstrinum en það gerum við ekki við afgreiðslu fjárlaga.