Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:21:09 (3030)

1999-12-15 21:21:09# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:21]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég hugsa um það þá eru sjálfsagt fjölmörg þjóðfélagsvandamál sem ég hef ekki nefnt í ræðu minni. Ég býst við því. Viðskiptahallinn er vandamál. Sumir segja að tekjurnar séu eingöngu af honum, gervitekjur eða eins og formaður Frjálslynda flokksins segir: Froðufé, vondir peningar og eitthvað slíkt.

Ef menn horfa á þessar tölur þá sjá þeir það að verulegur hluti af tekjuaukanum er tekjur af öðrum sköttum en veltusköttum, tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga eins og ég sagði. Hluti er að sjálfsögðu vegna veltunnar í þjóðfélaginu, virðisaukaskatti og þess háttar enda væri mjög óeðlilegt ef ríkissjóður nyti ekki góðs af uppsveiflunni eins og aðrir. En taki maður þessi áhrif í burtu, fjarlægi þau eins og menn gera í Seðlabankanum, í ráðuneytinu og hjá erlendum stofnunum, hver er þá niðurstaðan? Ríkissjóður er eigi að síður rekinn með afgangi, jafnvel þó að áhrif uppsveiflunnar séu fjarlægð. Það er kannski kjarni málsins og mikilvægast af öllu.