Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:22:22 (3031)

1999-12-15 21:22:22# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:22]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli vera virkur þátttakandi í umræðunni. Hann kom víða við í ræðu sinni þannig að í stuttu andsvari er ekki hægt að taka á nema einstöku þáttum. Ég vil í fyrra andsvari mínu koma aðeins að umræðu hans um svokallaðar verklagsreglur. Menn hafa rætt nokkuð um þær í fjárln. en ekki fengið nema ófullburða skjal frá fjmrn. sem sent var til baka eins og fram kom í ræðu minni í dag.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., vegna þess að hann sagði réttilega að í raun væru öll lagaákvæði til staðar, hvort hann telji þörf á því að setja þessar verklagsreglur. Síðan vil ég spyrja hvers vegna hann heldur að meiri líkur séu á því að það náist árangur í ríkiskerfinu og því að menn fari eftir fjárlögum á næsta ári en á árinu sem nú er senn að ljúka. Eins og hæstv. ráðherra sagði þá eru öll ákvæði til staðar og hefði verið hægt að bregðast við á fullnægjandi hátt, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt.