Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:28:46 (3036)

1999-12-15 21:28:46# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð sennilega bara að spyrja hv. þm. að því áður en ég tek til máls: Um hvað má ég tala til þess að það falli að kenningum hennar um hvað eigi að vera hér til umræðu? Ég talaði um það sem ég taldi mikilvægast að fjalla um í ræðu minni, miðað við það sem fram hefur komið í umræðunni þó vera megi að henni finnist lítið gert úr sumu af því sem hún talaði um.

Auðvitað þurfum við að hafa augastað á öllum viðfangsefnum í efnahagsmálum landsins þegar við erum að afgreiða fjárlög. Ég geri ekki lítið úr því heldur hef ég þvert á móti fjallað um það allt í ræðu minni. En það má heldur ekki gera of mikið úr vandamálunum. Það á ekki að sverta myndina að ástæðulausu. Þingmaðurinn hefur setið á Alþingi í 21 ár. Hún veit vel að tekjuáætlunin kemur alltaf við 3. umr. fjárlaga. Henni fylgir mismunandi mikill tekjuauki. Ég held að við ættum öll að fagna því að nú skuli hann það mikill að tilefni er til að auka afganginn.