Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 22:14:46 (3041)

1999-12-15 22:14:46# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KolH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[22:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Til umræðu er fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð kvaddi sér hljóðs við 2. umr. um frv. og gerir það sömuleiðis við 3. umr. til að láta í ljósi þær hugmyndir sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum er varða fjármál ríkisins.

[22:15]

Grunnhugsunin í hugmyndum okkar er sú að aukinn jöfnuður efli efnahagsástand þjóðarinnar og hugmyndir okkar hafa gengið út á að svo megi verða, að þjóðin fái búið við aukinn jöfnuð og þar með aukna velsæld. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ekki verið að tala fyrir niðurskurði hvað sem það kostar. Nei, við höfum lagt áherslu á að margt í tillögum ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrv. er af hinu góða og við höfum stutt ýmsar tillögur þar um. Við viljum að sjálfsögðu aðhald og okkur greinir á við hæstv. ríkisstjórn er varðar forgangsröðun í ýmsum málum.

Þess vegna höfum við gert athugasemdir við ýmsa skerðingu sem virðist vera á borðinu eins og skerðingu vaxtabóta og lækkun námslána sem má að okkar mati skýra með ósanngjarnri tekjutengingu. Ég minni á það, herra forseti, að framfærsla námsmanna er núna innan við 63 þús. kr. á mánuði og við höfum lagt á það áherslu að framfærsla námsmanna á að sjálfsögðu að vera sú sama og framfærsla annars fólks í landinu þannig að við höfum lagt á það áherslu að hér þurfi að auka jöfnuð. Við höfum að sjálfsögðu deilt áhyggjum þeirra sem hafa talað um viðskiptahallann en við höfum líka rætt um að orsaka hans megi kannski leita í því hve mikill ójöfnuður ríkir í samfélaginu, hve gífurlegar tekjur sumir geta haft á meðan aðrir hafa vart til hnífs og skeiðar.

Herra forseti. Við höfum áhyggjur af því að skuldir heimilanna skuli aukast stöðugt. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum á borðum okkar hafa þær aukist frá 1995 á slíkan hátt að það verður að fara að staldra við, það verður að finna raunhæfan möguleika til lækkunar skulda. Þær eru taldar vera núna um 144% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Við erum með viðskiptahalla upp á 38 milljarða kr. og við erum með aukna verðbólgu upp á 5,6% síðustu tólf mánuði.

Þetta þýðir að sjálfsögðu, herra forseti, að draga verður saman á einhverjum póstum og vinna að öðrum áherslum, vinna á öðrum nótum, og það eru ákveðnir staðir þar sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til að skorið sé niður. Þegar við erum að leggja til að hér sé líka aukið við útgjöld á ákveðnum póstum höfum við verið með tillögur um auknar tekjur á móti.

Við erum því fylgjandi að fjármagnstekjuskattur sé hækkaður og aukinn og peningarnir sem kæmu inn við slíka skattheimtu fari í að efla velferðarkerfið. Við höfum einnig lagt mikla áherslu í málflutningi okkar á að umhverfismálunum þurfi að sinna betur. Og, herra forseti, af því tilefni mæli ég fyrir brtt. sem við flytjum aftur við 3. umr. fjárlaganna, brtt. sem var felld við 2. umr. en við erum ekki alveg sátt við að snúa baki við.

Þannig háttar til, herra forseti, að á 123. löggjafarþingi voru samþykktar tvær þáltill. sem við teljum vera þýðingarmiklar tillögur og þær eru í málaflokki umhverfismálanna. Við töluðum fyrir því í 2. umr. að tillögur um Vatnajökulsþjóðgarð, undirbúning að Vatnajökulsþjóðgarði, fengju ákveðið fjármagn á fjárlögum og við lögðum til að undirbúningur hans fengi 3 millj. kr. en samkvæmt þáltill. er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin geri Alþingi grein fyrir undirbúningi þessa máls á vorþingi árið 2000. Þar sem ekki er markaður neinn tekjustofn fyrir þetta verkefni og þess er að engu getið í fjárlagafrv. viljum við freista þess, þó að tillaga okkar hafi verið felld við 2. umr., að endurflytja hana við 3. umr. Við lækkum að vísu upphæðina úr 3 milljónum í 1,5 milljónir og við teljum það nægja til að standa sómasamlega að verkefninu.

Hin tillagan sem við höfum ákveðið að endurflytja með lægri upphæð líka er tillagan um kortlagningu ósnortinna víðerna en á 123. löggjafarsamkomunni var samþykkt þáltill. um að á næsta ári skyldi gert átak í því að kortleggja ósnortin víðerni. Í þeirri umræðu sem á sér stað núna um hálendi Íslands og um hin ósnortnu eða lítt snortnu víðerni skiptir það okkur meginmáli að kortleggja þau víðerni því að þau eru auðlind í sjálfu sér. Ef við kortleggjum ekki og skoðum ekki hver þessi auðlind er þá getum við heldur ekki talað um að nýta hana til eins eða neins. Grundvallarhugsunin liggur í því að ná utan um málaflokkinn, ná utan um þessi ósnortnu víðerni með því að gera kort. Þess vegna endurflytjum við við 3. umr. fjárlaganna ósk um að kortlagning ósnortinna víðerna fái á fjárlögum næsta árs 1,5 millj. kr. Við treystum því að þessar tillögur okkar tvær fái stuðning því að hér er um sáralitla upphæð að ræða en í veigamiklum málaflokki og auk þess tvö mál sem eru studd af Alþingi þar sem Alþingi hefur nú þegar samþykkt þær þáltill. sem ég hef gert hér grein fyrir.

Þá vil ég, herra forseti, fagna því að í framsögu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns hv. fjárln., kom það fram að fjárln. leggur til breytingu á fjárlagaliðnum Ýmis verkefni undir umhverfisráðuneytinu. Þar er gert ráð fyrir að fjárlagaliðurinn 190 undir umhverfisráðuneyti, Ýmis umhverfisverkefni, fái 2 millj. kr. hækkun sem er tímabundin hækkun en ætluð til þess að styðja við starfsemi áhugamannasamtaka um náttúruvernd og umhverfisvernd. Hér tel ég, herra forseti, að gott mál sé á ferð því að samtök á borð við þau sem hafa sótt um stuðning hins opinbera eru Náttúruverndarsamtök Íslands, samtökin Sól í Hvalfirði og Umhverfisverndarsamtök Íslands. Allt eru þetta stór áhugamannasamtök sem gegna mikilvægu hlutverki í umhverfismálum okkar og þar sem Ísland er nú aðili að öflugum samningi, Árósa-samningnum, sem er alþjóðlegur samningur sem kveður m.a. á um það að stjórnvöld skuli líta til áhugamannahreyfinga á borð við þessar og ætla þeim ákveðið hlutverk, þá segjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að hér sé gott mál á ferðinni og boðum það að á næsta ári komum við til með að leggja til að vegur samtaka á borð við þessi verði enn aukinn og þeim verði beinlínis markaður ákveðinn tekjustofn eða fjárlagaliður undir umhvrn. á fjárlögum okkar.

Herra forseti. Við höfum einnig nefnt málefni Ríkisútvarpsins í þessari umræðu. Ég get ekki látið hjá líða að ítreka þær áhyggjur okkar. Ríkisútvarpið, sem við teljum vera einn af máttarstólpunum menningarstarfsemi þjóðar okkar, hefur þurft að lúta í lægra haldi fyrir aðhaldsöflunum og hefur ekki hlotið náð fyrir augum ríkisvaldsins þegar það hefur óskað eftir því að fá að hækka afnotagjöldin sín. Ríkisútvarpið fékk hækkuð afnotagjöld tvisvar á þessum áratug, um 4% árið 1993 og um 5% 1998. Nú er ósk Ríkisútvarpsins sú að það hljóti 12% hækkun afnotagjalda.

Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins halda því fram að þeim sé ómögulegt að hagræða enn frekar í rekstri en orðið er en það skal tekið fram, herra forseti, að mikil hagræðing hefur átt sér stað innan stofnunarinnar undanfarin ár og hefur gengið vonum framar að hagræða. En nú er svo komið að ekki verður meira að gert og í sannleika sagt, herra forseti, er dagskrá Ríkisútvarpsins farin að láta á sjá við allar hagræðingarnar og allan þennan innri niðurskurð. Nú ríður á að á einhvern hátt verði tekið af myndarskap á málefnum Ríkisútvarpsins.

Það hefur ekki verið ákveðið, herra forseti, að gera það nú og er það miður. En forsvarsmenn Ríkisútvarpsins komu í heimsókn bæði til fjárln. og sömuleiðis til menntmn. til að bera upp þessi mál sín og hlutu þar eins og ég segi skilning en ekki vilyrði um neinar aðgerðir. Af þessu höfum við áhyggjur, herra forseti, og mælumst til þess að þó ekki sé verið að gera neitt akkúrat núna á þessum tímapunkti í málefnum Ríkisútvarpsins þá verði það ekki látið ógert á næstunni, það verði tekið á málefnum þess.

Að öðru leyti vil ég segja það, herra forseti, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur verið virk í umræðunni um fjárlögin. Við höfum verið virk í atkvæðagreiðslunni og það munum við einnig vera á morgun þegar greidd verða atkvæði í þriðju umferð þessara umræðna. Við treystum á stuðning Alþingis við ákveðnum tillögum sem við höfum verið að tala fyrir í dag og við munum að sjálfsögðu styðja áfram góðar tillögur ríkisvaldsins á meðan við erum á móti öðrum. En ég ítreka það sem ég sagði, herra forseti, í upphafi máls míns að grunnurinn í hugmyndum okkar sem við höfum talað fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að aukinn jöfnuður í samfélaginu auki velsæld samfélagsins.