Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:18:38 (3045)

1999-12-15 23:18:38# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi var það ekki ræðumaður sem gerði fyrsta búvörusamninginn. Hann gerði flokksbróðir hæstv. ráðherra, Jón Helgason 1986, hygg ég vera frekar en 1985. (Gripið fram í.) Nei, ég held að fyrsti samningurinn hafi verið gerður a.m.k. 1986, ef ekki fyrr.

Ég er heldur ekki, herra forseti, að tala fyrir því að sett verði inn fyrir fram einhver fjárveiting vegna komandi búvörusamnings, það dettur mér ekki í hug. Það sem ég var að spyrja út í var hvort menn ætla ekki með neinu móti að bregðast við því geysilega tekjufalli, svo ekki sé sagt tekjuhruni, sem liggur fyrir hjá sauðfjárbændum núna milli ára með bráðaaðgerðum strax hvað sem líður síðan gerð búvörusamnings. Og ég vitnaði til hliðstæðra hluta eins og þess tekjufalls sem hefur orðið þegar loðnubrestur eða samdráttur í rækjuveiðum eða ýmislegt annað sambærilegt hefur gerst. Það eru öll rök til þess að grípa inn í þá geigvænlegu stöðu sem er að skapast á heimilum þessara manna.

Varðandi þessar 60 ríkisjaðrir þá er það tala sem ég þykist hafa heyrt einhvers staðar utan að mér. Ég tók það skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna sölu á ríkisjörðum til ábúenda sem eiga lögvarinn kauprétt að jörðunum, að sjálfsögðu ekki. En ég gagnrýni það mjög harðlega ef um hefur verið að ræða sölu á jörðum út fyrir þann rétt án auglýsinga og það jafnvel til algjörlega utanaðkomandi manna.

Það sem ég hefði viljað fá að heyra var skýr neitun frá hæstv. landbrh. gagnvart því að slíkt yrði gert í hans tíð. Það er í sjálfu sér til bóta að jarðir verði auglýstar því þá standa væntanlega allir jafnrétt að vígi, en það er þá eins gott líka, herra forseti, að það sé ekki Seðlabankaauglýsing eins og teiknarinn Sigmund var að sýna okkur hvernig kemur út í augum almennings þessa dagana þar sem hann teiknaði hóp af fólki sem hló að þeim ráðherrum við að hengja upp auglýsinguna um bankastjóraembættið í Seðlabankanum og lagði þeim þau orð í munn að fólkið sagði: ,,Við skulum láta þá halda að við trúum þessu.``