Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:20:47 (3046)

1999-12-15 23:20:47# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í gegnum síðasta búvörusamning var að vísu aðeins brugðist við þeim vanda sem varð vegna gæruverðfalls á síðasta hausti. Þó að það væri lítil aðgerð þá var hún þó viðleitni. Ég vænti þess einungis að þeir búvörusamningar sem ég vona að sjái dagsins ljós, helst nú í janúar, skili sauðfjárræktinni í nýja stöðu.

Hvað jarðirnar varðar þá get ég sagt það hiklaust að ég mun fylgja þeim reglum sem settar hafa verið í landbrn. af forvera mínum Guðmundi Bjarnasyni sem sætt hefur harðri og ég vil segja ómaklegri gagnrýni á mörgum sviðum því hann bjó í hinu gamla kerfi sem þekkt var. Ég mun fylgja þeim reglum sem Guðmundur Bjarnason setti með Ríkisendurskoðun hinn 1. maí að allar þær jarðir sem ekki eru háðar tíu ára búsetu verða auglýstar hvort sem um sölu eða leigu er að ræða. Það liggur alveg skýrt fyrir. Og ég mun gera kröfu til þess að þingið vinni með mér í þeim frv. sem ég þegar hef lagt fram um að mat á eignum manna sem eru að yfirgefa ríkisjarðir verði hlutlaust og metið öðruvísi en verið hefur. Ég mun sem allra fyrst reyna að skila hér frv. til endurskoðunar á jarðalögum þannig að þessi lög verði skýr, gagnsæ og gagnrýnislaus. Ég mun reyna að fylgja því eftir, hæstv. forseti.