Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:24:38 (3048)

1999-12-15 23:24:38# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þær spurningar sem hann hefur borið upp. Sérstaklega vil ég þakka fyrir þær vegna þess að það bendir til þess að stjórnarandstaðan sé býsna sátt við fjárlögin eins og þau stefna í að verða þegar aðalumræðuefnið gagnvart samgrh. eru þær heimildir sem koma fram í 7. gr. fjárlaga. Ég get því verið býsna ánægður með þá einkunn sem fjárlagafrv. eins og það er við 3. umr. fær hjá þm. hv.

Spurningarnar snúast um heimildir til sölu og nauðsynlegt er að vekja athygli á því að þarna er um að ræða ýmsar heimildir til að selja eignir ríkisins sem talið er að nýtist ekki ríkinu sem skyldi eða eins og hefur verið á undanförnum árum og undanförnum áratugum. Þarna er um að ræða t.d. eignir sem hafa verið á snærum Landssíma Íslands, sem nú er sérstakt hlutafélaga, og verið er að veita heimild til að ríkið afsali með öllu þessum tilteknu eignum til Landssímans þannig að Landssíminn geti ráðstafað þeim.

Hvað varðar Málmey, sem sérstaklega var getið um, þá liggur ekkert fyrir um það af hálfu samgrn. að selja eigi einhverjum einstökum. Þarna er verið að leita heimildar og ég gæti vel hugsað mér að sveitarfélagið Skagafjörður eða önnur sveitarfélög þar í nágrenninu eignuðust Málmey ef um það gæti samist. En aðalatriðið er að leita þessara heimilda.

Hvað varðar Elliðaey á Breiðafirði þá hefur hún því miður verið í niðurníðslu og get ég komið að því í síðara andsvari.