Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:29:08 (3050)

1999-12-15 23:29:08# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að það væri nú heldur aftan að hlutunum komið ef fyrst yrði leitað eftir kaupendum, hugsanlegum kaupendum og valdir einhverjir sérstakir hugsanlegir kaupendur til að bera síðan upp á Alþingi tillögur um að fá heimild til sölu (Gripið fram í: Hvernig fór þetta á Hóli?) einstakra jarða án þess að fyrir lægi heimild áður en til samninga eða auglýsinga kæmi, þannig að það er nú alveg ómögulegt fyrirkomulag.

En ég vil vegna þess sem ég sagði um eyjar sem eru í niðurníðslu þá liggur það alveg fyrir að húsakynni á þessum eyjum, t.d. á Elliðaey á Breiðafirði hafa verið í niðurníðslu og það er ríkinu alls ekki til sóma að standa þannig að málum. Þessi eyja hefur ekkert nýst nema vegna vitans sem þar er og svo er um fleiri jarðir sem leitað er heimilda um sölu á. En ég tel að þarna sé eðlilega að verki staðið og engin hætta sé á ferðum. Ég skil þá afstöðu hv. þm. að hann sé á móti því að jarðnæði gangi úr opinberri eigu, það er út af fyrir sig virðingarvert sjónarmið. En það er mat okkar sem að frv. og þessum tillögum stöndum að ekki sé ástæða til annars en að leita þessara heimilda og leita síðan leiða til að koma þeim eignum í verð og að staðið verði fullkomlega eðlilega að slíkri sölu.

Af minni hálfu mun verða leitað allra leiða til að standa sem best að sölu þeirra eigna sem hér er leitað eftir heimildum fyrir.