Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 11:29:16 (3077)

1999-12-16 11:29:16# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessari brtt. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er gert ráð fyrir að fallið verði frá fyrirhugaðri skerðingu á tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Um 330 manns eru á biðlistum eftir húsnæðisúrræðum. Sjóðnum verður ýmist lítt eða alls ekki fært að sinna ýmsum öðrum lögbundnum skyldum sínum á næsta ári, svo sem viðhaldi húsnæðis, framlögum til atvinnumála fatlaðra og tækjakaupa, styrkjum til félagasamtaka, framlögum til að bæta aðgengi fatlaðra að byggingum o.s.frv. Að óbreyttu stefnir nú, mitt í hinu margrómaða góðæri hæstv. ríkisstjórnar, í mestu skerðingu á þessum lögbundna tekjustofni Framkvæmdasjóðs fatlaðra frá upphafi eða um eða yfir 60% sem hirt verða í ríkissjóð og afgangurinn verður til skiptanna til allt of margra og stórra verkefna.

Við leggjum því til, herra forseti, að fallið verði frá þessari skerðingu. Hún er algjörlega misráðin við þessar aðstæður og ég hvet hv. þingmenn til að greiða brtt. atkvæði.