Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 12:15:17 (3101)

1999-12-16 12:15:17# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[12:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú er það Málmey í Skagafirði sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara fram á að fá heimild til að selja. Aðspurður í gær gat hæstv. samgrh. engu svarað um það hver ætti að fá Málmey og hverjum ætti að selja Málmey. Það komu engar haldbærar skýringar eða rök fram fyrir því að þörf væri á svona heimild yfirleitt. Og þó svo kynni að vera að færa þyrfti forvöltun eignarinnar milli deilda í Stjórnarráðinu, þá er það ekkert vandamál. Ríkið getur komið því fyrir með haganlegum hætti og séð sómasamlega um sínar eignir.

Það er algerlega fráleitt, herra forseti, og gengur gegn öllum tíðaranda að vera að taka land úr almannaeigu og afhenda það utanaðkomandi einkaaðilum út af fyrir sig. Ég minni á þær umræður sem voru á liðnum þingum um aðgang þjóðarinnar að hálendinu og að sameign almennings á náttúruperlum og náttúruverðmætum í landinu. Eins og komið hefur í ljós, herra forseti, þá er líka verklagsreglum í þessu sambandi mjög áfátt í Stjórnarráðinu. Það er þess vegna alveg fráleitt að Alþingi sé að afgreiða heimildir af þessu tagi og ég er alfarið andvígur því að selja Málmey.