Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 12:30:18 (3109)

1999-12-16 12:30:18# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er eins gott að við ljúkum afgreiðslu þessara fjárlaga fyrir áramótin og áður en 2000-vandinn gengur í garð úr því að þetta gengur ekki betur en raun ber vitni samt.

Þetta fjárlagafrv. lítur nokkuð vel út á yfirborðinu en þegar skyggnst er undir það yfirborð leynist þar margvíslegur vandi og ýmis hættumerki eru við sjóndeildarhringinn. Því miður er stærsti hluti af hinum margrómaða tekjuafgangi ríkissjóðs til kominn vegna mikillar verðbólgu og viðskiptahalla og góðærinu, sem menn kalla svo, er harla misskipt og því miður hafa hér við afgreiðslu málsins, herra forseti, ekki fengist samþykktar tillögur til þess að bæta þar úr að neinu verulegu ráði. Felldar hafa verið tillögur um hækkanir til elli- og örorkulífeyrisþega og fjölmargra slíkra verkefna á velferðarsviðinu en þar er sannarlega að finna þá hópa sem borið hafa skarðan hlut frá borði. Það er því ýmsu ábótavant í þessu frv., herra forseti, og því miður er það tilfinning ræðumanns að það eigi ekki eftir að reynast jafnhaldgott og aðstandendur þess vilja vera láta. Ég greiði ekki atkvæði.