Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 12:36:27 (3115)

1999-12-16 12:36:27# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[12:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ríkisstjórnin hælir sér af væntanlegum rekstrarafgangi upp á 16,7 milljarða kr. Þessi rekstrarafgangur er fenginn með því að selja og gefa eignir þjóðarinnar. Þessi rekstrarafgangur er fenginn með því að hlunnfara aldraða og öryrkja. Þessi rekstrarafgangur er fenginn með því að þyngja skattbyrðar láglauna- og millitekjufólks, með því að láta skattleysismörk ekki fylgja launaþróun. Þessi rekstrarafgangur er fenginn á kostnað námsmanna og hann er fenginn á kostnað barnafólks en barnabætur munu samkvæmt frv. lækka um á fjórða hundrað millj. á næsta ári. Misskipting og misrétti blasir við á annarri hverri síðu þessa fjárlagafrv. sem hér er verið að samþykkja.

Þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði sér ríkisstjórnin ástæðu til að hlunnfara sérstaklega tekjulægri hluta þjóðfélagsins. Þetta er ömurlegur vitnisburður um þessa ríkisstjórn og þann meiri hluta sem veitir henni brautargengi á Alþingi Íslendinga.