Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:37:42 (3118)

1999-12-16 13:37:42# 125. lþ. 47.6 fundur 161. mál: #A Seðlabanki Íslands# (lausafé lánastofnana) frv. 96/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það virðist næsta sjálfsagt mál að Seðlabankinn fái lagalegt svigrúm, svo maður noti kunnuglegt orðalag, til að bregðast við breyttum reglum sem eru að mótast eða liggja þegar fyrir á alþjóðavettvangi og við munum væntanlega taka upp eða erum jafnvel samningsbundin til að taka upp hvað varðar skilgreiningu á lausafé og eigin fé bankastofnana. Ég sé þar af leiðandi ekki ástæðu til þess að leggjast gegn eða fjölyrða um þá breytingu sem 1. gr. frv. felur í sér eða þeirri grein að þau ákvæði núgildandi laga um Seðlabankann, sem að mati fróðra manna takmarka um of möguleika bankans til að bregðast við í þessum efnum, falli brott.

Hitt vekur nokkra athygli mína, herra forseti, að rökstuðningurinn er á þá leið, ef má vitna í frv., með leyfi forseta:

,,Í mars sl. setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um laust fé lánastofnana sem byggjast á núverandi 3. mgr. 8. gr. laganna um Seðlabanka Íslands.`` --- Svo kemur nú ein af rúsínunum, herra forseti: ,,Við setningu reglnanna var Seðlabankanum ljóst að þær væru ekki nútímalegar.``

Undir lok sömu málgsreinar, herra forseti, kemur setning sem hljóðar svo: ,,Seðlabankinn bauð um leið lánastofnunum og Fjármálaeftirlitinu til samstarfs um undirbúning að setningu nýrra reglna sem væru meira í takt við nútímaleg og alþjóðleg sjónarmið.``

Nú held ég, herra forseti, af því að það ber svo vel í veiði að hv. formaður efh.- og viðskn. er maður ákaflega vel að sér um þessa hluti, þekkir völundarhús viðskiptalífsins og ratar þar nánast út í hvern krók og kima, að rétt væri við fengjum smáfræðslu frá hv. formanni efh.- og viðskn. um það hvað er nútímalegt og alþjóðlegt í þessum efnum og hvað ekki.

Það undrar mig stundum, herra forseti, þegar menn setja svona tímabundnar athugasemdir fram sem efnisrök í sjálfu sér. Er til mælikvarði á þessa hluti? Hvað er nógu nútímalegt og hvað ætli sé ekki nútímalegt? Hvað felst á bak við slík lýsingarorð? Er það ekki það sem hér er verið að tala um að reglurnar séu að taka einhverjum breytingum, að þær séu annaðhvort að verða strangari eða taki til öðruvísi skilgreininga eða annarra slíkra hluta. Þá finnst mér að eigi að segja það og lýsa því en ekki skjóta sér á bak við frasa af þessu tagi, ef ég má leyfa mér að orða það svo, og hafa svo ekkert frekar fyrir því að rökstyðja hlutina. Mér finnst þetta frekar fátæklegt, herra forseti, og jaðra við að vera heldur barnaleg, einfeldnisleg framsetning á málunum. Nær hefði þá verið að gefa eitthvert yfirlit yfir það í greinargerð frv. í hvaða átt þessar reglur væru að þróast. Út af fyrir sig liggur það að einhverju leyti fyrir. Hæstv. viðskrh. hefur m.a. vitnað í það í umræðum um bankamál að vænta megi breytinga sem bankarnir þurfi að takast á við að uppfylla á komandi árum og þær munu gera meiri kröfur til þeirra en þær reglur sem hafa verið í gildi en þá finnst mér líka að eigi að segja í hverju þróunin í þessum efnum er fólgin, hvernig hinar nútímalegu reglur lýsa sér í samanburði við aðrar reglur sem ekki eru þó eins nútímalegar o.s.frv.

Ég held, herra forseti, að það sé alveg þess virði að fá aðeins gleggri skýringar á þessu máli.