Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:41:59 (3119)

1999-12-16 13:41:59# 125. lþ. 47.6 fundur 161. mál: #A Seðlabanki Íslands# (lausafé lánastofnana) frv. 96/1999, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem málið snýst um er að í núverandi 3. mgr. 8. gr. laga er skilgreining á því hvað laust fé er sem taka á tillit til. Það hefur hins vegar gerst í tímans rás að það sem bankarnir telja nú til lauss fjár og þeir liðir í efnahagsreikningi sem geta núna talist laust fé eru aðrir. Það eru einfaldlega komnar, svo að ég noti kannski það orð aðrar ,,vörur`` inn í efnahagsreikning viðskiptabankanna sem þeir telja til lauss fjár.

Ég nefni t.d. að dreift er, að mér skilst, í hverjum mánuði plaggi frá Seðlabankanum sem fjallar um endurhverf verðbréfakaup. Þessi endurhverfu verðbréf eru dæmigerð fyrir það lausafé sem viðskiptabankar og sparisjóðir geta notað en eru kannski ekki alveg í samræmi við þær reglur sem áður giltu um hvað var nákvæmlega laust fé. Þetta er eitt dæmi. Það sem málið snýst um er að hafa reglurnar þannig að þær taki kannski ekki nákvæmlega á því hvaða tilteknar eignir eru laust fé heldur sé fyrst og fremst farið eftir eðli máls á hverjum tíma og að það sé fyrst og fremst markmiðssetningin sem skili sér þá inn í lagatextann. Þetta er í raun og veru ástæðan fyrir breytingunni, að það er að koma upp mikið af nýjum vörum sem bankarnir telja sem laust fé sem menn höfðu ekki áður og þess vegna ef aðhaldið er miðað við það gamla virkar það ekki og þess vegna er orðið nútímalegt notað. En ég þekki hins vegar gamla andstöðu hv. þm. við þetta orð ,,nútímalegt``.