Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:44:22 (3120)

1999-12-16 13:44:22# 125. lþ. 47.6 fundur 161. mál: #A Seðlabanki Íslands# (lausafé lánastofnana) frv. 96/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta var nú hortittur hjá hv. þm. En mér er svo sem alveg sama hvaða orð menn nota, hvort menn kalla hluti nútímalega eða gamaldags. Það segir mér bara ekki neitt. Það sem ég var að lýsa eftir, herra forseti, var nánari skýring á innihaldi hlutanna og ég þakka hv. þm. að svo miklu leyti sem honum nægði tíminn í knöppu andsvari til þess að lýsa aðeins betur inn í það.

Ég held að ástæða sé til að reyna að hafa þessa hluti sæmilega skýra og eins og ég sagði áður geri ég engar athugasemdir við það að við undirbúum það að reglur verði sambærilegar við það sem annars staðar gerist. Það mætti alveg taka meiri tíma í það mín vegna að fara yfir þá hluti og fara yfir það hvernig íslenska bankakerfið og íslenskar fjármálastofnanir eru almennt á vegi staddar hvað það varðar að uppfylla þær kröfur og taka á móti þeim breytingum sem þarna eru í farvatninu, að einhverju leyti þegar ákvarðaðar fyrir fram, herra forseti, með gildistöku á næstu árum, ef ég veit rétt.

Það er ekkert óskaplega langur tími síðan þessi mál voru mjög heit og til umræðu, eins og ég geri ráð fyrir að ýmsir hv. alþm. muni, ósköp einfaldlega vegna þess að nokkrar af mikilvægustu fjármálastofnunum þjóðarinnar römbuðu á þeim mörkum að uppfylla lágmarkskröfur í þessum efnum. Það er bara ekki langt síðan, herra forseti, að þannig háttaði til. Þó að við getum kannski að einhverju leyti slappað af í augnablikinu og sagt að þetta sé í betra horfi nú, þá er það þó þannig að hvorki þeir bankar sem enn þá eru að hluta til í eigu ríkisins né reyndar hinn frægi einkabanki eru neitt óskaplega langt yfir þessum mörkum, a.m.k. miðað við það sem þeir stefna í. Það er fyrst og fremst einn hópur lánastofnana sem ég held að án undantekninga standi mjög vel að vígi til að mæta þessum kröfum og það eru sparisjóðirnir. Af einhverjum sérstökum ástæðum hafa ýmsir þingmenn allt á hornum sér þegar þeir eru nefndir eins og ég sé á viðbrögðum manna úti í salnum.