Margrét Frímannsdóttir:
Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni er um samkomulagsmál að ræða af hálfu efh.- og viðskn. Frv. kemur inn í þingið vegna tilskipunar Evrópusambandsins sem er frá 27. jan. 1997 um peningayfirfærslu milli landa skv. 11. gr. þeirrar tilskipunar og áttum við að hafa lokið þessari aðlögun eigi síðar en 14. ágúst 1999. Síðan kemur fram öllum á óvörum að frv. sé samið í viðskrn. en það er bara föst venja hér að flest frumvörp og langstærsti hluti þeirra frumvarpa sem Alþingi tekur til umfjöllunar er saminn í viðkomandi fagráðuneyti. Engu að síður er um mjög mikilvægt mál að ræða fyrir einstaklinga og fyrirtæki og þá kannski ekki hvað síst fyrir minni fyrirtæki, að geta yfirfært fé á skjótan og áreiðanlegan og ódýran hátt frá einum hluta efnahagssvæðis til annars.
Í umsögnunum voru ekki gerðar neinar athugasemdir nema við gildistökuákvæðið sem var 1. janúar og er það kannski fyrst og fremst vegna þess að stjórnvöldum hefur láðst að kynna með nægjanlegum fyrirvara hvenær þessari aðlögun þyrfti að vera lokið hjá okkur, þ.e. 14. ágúst sl. Hefði fyrirtækjum og einstaklingum verið það ljóst að þessi aðlögun þyrfti að eiga sér stað á þessu ári og búið væri að setja okkur ákveðin tímamörk, hefðu menn e.t.v. verið búnir að undirbúa sig betur en raun ber vitni. Ég verð hins vegar að geta þess af því að mér finnst það alltaf svolítið skondið, virðulegi forseti, þegar menn láta eins og þeir hafa haft eitthvað um efni tilskipananna að segja. Það kemur til að mynda fram í umsögn Seðlabanka Íslands að við samningu frv. hafði viðskrn. samráð við Seðlabanka Íslands. Bankinn hafði því tækifæri til að koma að athugasemdum á framfæri við ráðuneytið og var tillit tekið til þeirra flestra.
Þarna er ákveðinn látbragðsleikur í gangi að íslensk stjórnvöld, að Seðlabankinn hafi yfir höfuð eitthvað um það að segja hvað stendur í þessu frv. en það er ekki þannig. Þarna er um að ræða þýðingu á tilskipun. Danir völdu t.d. þá leið að setja þetta inn í sérstakt lagafrv. og gildistaka þess frv. var á þeim degi sem fresturinn rann út, þ.e. 14. ágúst. Þá tóku dönsku lögin gildi en hér erum við að draga lappirnar eins og reyndar oft áður og nú verðum við að gera það vegna beiðni þeirra umsagnaraðila sem komu á fund nefndarinnar eða sendu umsagnir að breyta gildistökuákvæðinu og er sjálfsagt að verða við því að þeir hafi a.m.k. tækifæri til að undirbúa sig.
Virðulegi forseti. Við 1. umr. málsins fór ég aðeins yfir nauðsyn þess að hér ætti sér stað ítarleg umræða eða skýrslugjöf frá stjórnvöldum til þingsins um möguleika Íslendinga til að koma að tilurð þeirra tilskipana sem við erum að lögtaka og möguleika okkar til þess að ræða mál af þekkingu sem byggist þá á því fyrst og fremst að við vitum hvernig grunnvinnan er í þeim málum sem hér koma inn. Því er ekki að heilsa. Hæstv. viðskrh. var staddur hér við 1. umr. málsins en er ekki núna og það er auðvitað slæmt vegna þess að þó að þetta sé ekki beint hluti af evrunni, en frv. gerir samt ráð fyrir upphæðum í evrum, þá er verið að aðlaga þennan viðskipta- og fjárlagamarkað Evrópska efnahagssvæðinu og það er orðin mikil nauðsyn á því að Alþingi sé gefin skýrsla um þær viðræður sem hafa átt sér stað af hálfu íslenskra stjórnvalda og skoðun á því hver staða okkar verður innan Evrópu og í þessum viðskiptum þegar evran verður orðin ríkjandi mynt í þeim þjóðum sem við erum kannski að skipta við að stórum hluta. Við megum ekki gleyma því að mörg íslensk fyrirtæki eiga nánast öll viðskipti sín á Evrópumarkaði og fara að gera áætlanir sínar í þessari nýju mynt og því er mjög nauðsynlegt að alþingismönnum sé gerð grein fyrir þeim athugunum sem hafa átt sér stað. Þó að vissulega hafi verið skilað þremur eða fjórum skýrslum hefur það aldrei verið tekið til umræðu á hv. Alþingi og aldrei nokkurn tíma verið farið yfir það hver aðkoma okkar er að málum eins og þessu. Mér dettur í hug og tel mig reyndar hafa nokkra vitneskju um það að mál eins og þetta komi bara ósköp einfaldlega, dælist inn á faxi hjá viðskrn. eða í tölvupósti, sé keyrt þaðan út og sett í þýðingu og það sé öll vinnan sem íslensk stjórnvöld inna af hendi við tilurð máls og undirbúning þess að það komi fyrir hv. Alþingi. Þetta er ekki líðandi. Við verðum að fara að ræða þessi mál af meiri alvöru en hefur verið gert.
Virðulegi forseti. Ég hlýt að ítreka beiðni okkar í þingflokki Samfylkingarinnar þess efnis að viðskrh. eða fjmrh. skili þinginu skýrslu um þær athuganir sem hafa átt sér stað svo að við getum tekið á stöðu Íslands innan Evrópu eða í samstarfi Evrópuþjóðanna og við getum tekið langa og ítarlega umræðu og séum þá betur í stakk búin til þess að ákveða hvernig við viljum sjá framtíðina og vinnubrögðin í þessum málum. Við erum með mjög fáa starfsmenn erlendis til þess að gera. Við erum við með mjög fáa starfsmenn til þess að geta dekkað alla þá málaflokka þar sem tilskipanir Evrópusambandsins ná til sem við erum að lögtaka hér og um 80% af okkar löggjöf kemur beint frá Brussel. Við erum ekki með starfskrafta til þess að sinna hverjum einasta málaflokki en þá verðum við líka að vera tilbúin til þess að forgangsraða og við verðum að vera tilbúin til að geta tekið svona mál til umræðu inn á Alþingi af a.m.k. lágmarksþekkingu á tilurð málsins og hvers vegna það hefur verið lagt fyrir hv. Alþingi. Þetta er bara hluti af þeim vinnubrögðum sem hafa kannski tíðkast hérna allt of mikið í seinni tíð, það er að kasta inn mikilvægum málum á stuttum tíma. Og þó þetta einstaka mál, þ.e. breyting á lögum um gjaldeyrismál, sé samkomulagsmál og sé ekki mjög stórt í sniðum, þá er það því miður orðið allt of algengt á hv. Alþingi að við tökum inn stór mál, bæði þau sem koma í formi þýddra tilskipana og sett inn í íslensk lög eða það sem verður til í viðkomandi fagráðuneytum og ætlum okkur allt of lítinn tíma bæði til umfjöllunar um málin og afgreiðslu. Lítill áhugi er hjá hv. þm. á því að fara yfir þessi mál og stöðu okkar innan Evrópu þó að ég ítreki að ég er hrædd um að ef við ekki höldum rétt og vel á málum þar geti það orðið hið stóra byggðamál framtíðarinnar hvað Ísland varðar.