Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:59:42 (3124)

1999-12-16 13:59:42# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt til í því sem hv. þm. segir um aðkomu þingsins að EES-málum. Það vill svo til að ég hef verið að kynna mér þetta nokkuð í hlutverki mínu sem formaður í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA. Ég held að við gætum um margt lært af norska þinginu hvernig þeir standa að aðkomu þingsins að EES-málum. Þar hefur þingið formlega tækifæri til að koma miklu fyrr að því hvaða mál eru á ferðinni og hafa þá áhrif og koma með athugasemdir eftir því sem þingmenn hafa áhuga á.

Það er hins vegar fyrirhugað að utanrmn. og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA haldi sameiginlega semínar um EES-málin eftir áramótin. Ég er að vona að í framhaldi af því takist að finna einhvern farveg fyrir aðkomu þingsins að EES-málum.

Ég var nýlega á fundi þingmannanefndar EFTA þar sem fram komu t.d. upplýsingar um sérstaka aðgerðaáætlun vegna innri markaðarins sem Evrópusambandið er með á prjónunum. Þar eru mörg mál sem væri mjög áhugavert yfir þingið að koma að á fyrri stigum, a.m.k. að hafa upplýsingar um það hvaða mál eru yfirleitt á ferðinni og því tel ég einsýnt að þingið þurfi að bæta vinnubrögð sín í aðkomu að þessum málum.