Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:01:39 (3125)

1999-12-16 14:01:39# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði að við getum mjög margt lært af norska þinginu og Norðmönnum í því hvernig þeir standa ekki bara að upplýsingagjöf og vinnubrögðum innan norska þingsins heldur einnig upplýsingagjöf til almennings um stöðu mála hverju sinni og áhrif þess á daglegt líf Norðmanna, hvort sem um er að ræða lagasetningu eða reglugerðir sem eru náttúrlega aldrei nokkurn tíma ræddar hér eða kynntar. Það er mjög mikið að vinnubrögðum þingsins hvað þetta varðar og ég fagna því alveg sérstaklega að sú ákvörðun hefur verið tekin að utanrmn. og EFTA-nefndin haldi málþing núna eftir áramótin. Vonandi leiðir það til betri vinnubragða og við finnum þá leið sem okkur hentar því það getur ekki gengið að þingið sýni þessum málum nánast engan áhuga og hafi lagt í það mjög takmarkaða fjármuni líka að reyna að ná í vitneskju um þau vinnubrögð sem eru tíðkuð í öðrum þingum og hvað við mættum af þeim læra. Það er löngu orðið tímabært og ég veit að hv. formaður efh.- og viðskn. hefur tekið undir þetta og reyndar rætt það oft áður að við þurfum að bæta vinnubrögð okkar hér bæði hvað varðar þingið og upplýsingagjöf til almennings.