Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:24:04 (3129)

1999-12-16 14:24:04# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Til umfjöllunar er frv. til laga um breyting á lögum um gjaldeyrismál þar sem um er að ræða að laga íslenskan rétt að tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um peningayfirfærslur milli landa. Í reynd má segja að þetta frv. sé tæknilegs eðlis og sett fram í hagræðingarskyni. Inn í þessar umræður hafa hins vegar fléttast önnur mál, þ.e. hversu langt við eigum að ganga í að laga okkur að háttum Evrópusambandsins. Menn hafa staldrað þar aðallega við evruna, sameiginlegan gjaldmiðil sem þjóðir innan Evrópusambandsins, þó ekki allar, eru að koma á fót.

Nú stendur Íslendingum ekki til boða að gerast aðilar að evrunni, einfaldlega vegna þess að skilyrði fyrir því að gerast aðili að sameiginlegum gjaldmiðli Evrópusambandsins er aðild að því sambandi og ekki er pólitísk samstaða í landinu um að sækja um slíka aðild. Frá sjónarhóli Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs kemur slík aðild ekki til greina. Hún er ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga. Hins vegar fögnum við því alltaf þegar umræður um Evrópumálin eru uppi og teljum mjög mikilvægt að halda þeirri umræðu vakandi. Af þeim sökum ætla ég að leggja örfá orð í púkkið um samstarf á sviði peningamála og þá sérstaklega hvað snertir evruna.

Reyndar er það svo að þegar umræður um evruna hófust og dagsins ljós litu þau skilyrði sem sett voru fyrir aðild að evrunni þá voru Íslendingar ein fárra þjóða sem höfðu efnahagslegar forsendur til að gerast þar aðili. Við skulduðum minna en gerðist almennt í Evrópu. Eitt af skilyrðum fyrir aðild að evrunni var að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu væru undir tilteknu marki. Mig minnir að það hafi verið 60%. Síðan var annað skilyrði að við byggjum við stöðugt verðlag. Það höfum við gert síðustu ár eða þennan áratug allt fram á þennan dag. Blikur eru á lofti í þeim efnum, nú síðast með endurskoðaðri þjóðhagsspá sem gerir ráð fyrir 4--5% verðbólgu á næsta ári sem er mun meira en við höfðum áður ætlað. Í þessari nýendurskoðuðu þjóðhagsspá kom einnig í ljós að verðbólguhraðinn á síðustu tólf mánuðum nam 5,6%. Þetta var annað skilyrðið sem var sett, þ.e. stöðugleiki í verðlagi. Þriðja skilyrðið sem sett var var vaxtastigið. Þar var helst veikleika að finna í okkar efnahagsstjórn.

En eins og ég segi þá hefðum við ekki átt og eigum ekki kost á aðild að evrunni nema við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Hitt er svo annað mál að sú stefna er uppi hjá íslenskum stjórnvöldum og ráðgjöfum þeirra í efnahagsstjórn og peningastjórn að við reynum eftir fremsta megni að laga okkur að evrunni og samstarfi á sviði peningamála eins og kostur er. Hins vegar fyndist mér margt mæla gegn því að gerast aðilar að sameiginlegum evrópskum gjaldmiðli. Fyrir það fyrsta mun evrópskur seðlabanki fara með peningastjórnina, mun stýra genginu og framboði á peningum og aðrar breytur, aðrar efnahagsstærðir yrðu að laga sig að því. Önnur stærð í efnahagslífinu sem um væri að ræða væri atvinnuleysið þá fyrst og fremst. Atvinnuleysið yrði að rokka upp og niður. Í umræðu um evruna í Evrópu hafa menn einmitt lagt áherslu á að losa um allar hömlur á flutningi vinnuafls. Við búum náttúrlega við þá sérstöku stöðu á Íslandi að við búum á eylandi og fólk á erfiðara um vik að flytjast búferlum ef þrengir að um atvinnuna, fyrir utan það að það er mjög ógeðfellt að geta ekki gripið til annarra ráðstafana til þess að stuðla að auknu og betra og hærra atvinnustigi.

Sá þáttur sem Íslendingar hafa beitt við efnahagsstjórnina í þessu skyni hefur verið stýring á genginu. Það er ekki eftirsóknarverður kostur að fella gengið í þeim mæli sem gert hefur verið á Íslandi í tímans rás. Síðast var það fellt að einhverju marki árið 1989 um 30% og olli það verulegri tekjurýrnun hjá fólki. En hagfræðingar hafa slegið á að það megi deila í gengisfellinguna með tveimur til að reikna út kaupmáttarhrapið. Og ef um var að ræða 30% gengisfellingu eins og var á árinu 1989, þá þýddi það 15% skerðingu á kaupmætti kauptaxta. Þetta er því að sjálfsögðu ekki eftirsóknarverð leið. En engu að síður er þetta hagstjórnartæki sem getur verið góðra gjalda vert að geta nýtt ef því er að skipta. Við erum því að reyna að laga okkur að skilyrðum sem sett hafa verið fyrir aðild að evrunni og við erum að reyna að laga okkur að ýmsum tilskipunum sem settar eru til að auðvelda flutninga á peningum og auðvelda verslun og er ekkert nema gott um það að segja. Þess vegna hef ég undirritað nefndarálit frá efh.- og viðskn. sem mælir með því að þetta frv. verði samþykkt.

Ég vil að lokum taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um þá afstöðu íslenskra yfirvalda og þá sérstaklega utanrrh., sem leyfir sér að gagnrýna Norðmenn mjög harkalega fyrir að íhuga að beita neitunarvaldi gegn ákvörðunum sem kunna að verða teknar í Evrópusambandinu þvert á vilja Norðmanna, neitunarvaldi gegn því að þær verði látnar yfir Norðmenn ganga sem aðila að EFTA. Ef slíkir mekanismar eru fyrir hendi í þessu samstarfi, þ.e. neitunarvald, þá er að sjálfsögðu eðlilegt og lýðræðislegt að þeir séu notaðir ef lýðræðislegur vilji er fyrir því. Og mér finnst afar vafasamt af hálfu Íslendinga að leyfa sér að hafa uppi gagnrýni á Norðmenn án tillits til tilefnisins. Menn eiga þá að ræða tilefnið. En hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, hefur gagnrýnt beitingu slíks neitunarvalds sem slíks án tillits til þess sem verið er að mótmæla og það er náttúrlega fullkomlega óeðlilegt að gera og vanvirðing á lýðræðislegum vilja Norðmanna í þessu tilviki.

Þetta frv. um breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, styð ég.