Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:33:36 (3130)

1999-12-16 14:33:36# 125. lþ. 47.8 fundur 200. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 99/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar er á ferðinni eitt stjórnarfrv. í viðbót og eitt þingmannafrv. um Fjármálaeftirlitið sem nefndin hefur ákveðið að bíða með afgreiðslu á þangað til eftir jólahlé, en nefndin ákvað að taka hér út úr frv. um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem er sérmál. Það þýðir að ákvæði um greiðslu kostnaðar við fjármálaeftirlit verður í sjálfstæðum lögum.

Efnisatriði þessara laga eru nánast þau sömu og efnisákvæði reglugerðar sem gildir um einstaka gjaldflokka, gjaldstofna og gjaldhlutföll. Breytingin sem frv. gerir ráð fyrir felst fyrst og fremst í því að í stað þess að þessi ákvæði séu í reglugerð þá verða þau í lögum. Enn fremur eru í frv. ýmis ákvæði sem fjalla um hvernig standa skuli að yfirferð yfir fjármál Fjármálaeftirlitsins, áætlanir um rekstur og því um líkt.

Nefndin gerir eina brtt. við frv. sem kveður á um hvernig aðkoma svokallaðrar samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila verði að því að fjalla um áætlað rekstrarumfang næsta árs og hvernig samskipti samráðsnefndarinnar og stjórnarinnar sé. Gert er ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið þurfi eigi síðar en 15. ágúst ár hvert að senda samráðsnefndinni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum til þess að samráðsnefndin geti gefið álit sitt á umfanginu. Um þetta fyrirkomulag, þ.e. samvinnu stjórnarinnar og samráðsnefndarinnar, var ágætissamkomulag á sínum tíma þegar lögin um Fjármálaeftirlitið voru sett. Það er einungis verið að skerpa á þeim vinnubrögðum sem á að viðhafa í þessu sambandi.

Það er engin andstaða við frv. af hálfu umsagnaraðila. Menn hafa unað þessum gjaldstofnum og gjaldhlutföllum. Efh.- og viðskn. fór reyndar í heimsókn til Fjármálaeftirlitsins og kynntist rekstrinum þar. Eftirlitið hefur enn fremur haldið stóran kynningarfund með eftirlitsskyldum aðilum á starfsemi sinni og ég hygg að það megi segja að starfsemi þessarar stofnunar hafi farið vel af stað, en hún var sem kunnugt er búin til úr sameiningu bankaeftirlitsins og Vátryggingaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með mikilli flóru af starfsemi eins og menn geta komist að við lestur 5. gr. frv., en þar eru taldir upp þeir aðilar sem stofnunin hefur eftirlit með. Starfsemi stofnunarinnar er mjög mikilvæg, bæði er mikilvægt að hún geti gegnt hlutverki sínu og eins það að umfang eftirlitsins sé hvorki of íþyngjandi né of lítið þannig að hún falli í eðlilegan farveg miðað við umsvifin á þeim markaði og hjá þeim aðilum sem hún þarf að hafa eftirlit með. Mér sýnist að þetta hafi farið vel af stað og vonandi verður framhald þar á. En efh.- og viðskn. gerir ekki aðrar tillögur um breytingar á frv. en koma fram í brtt. á sérstöku þskj.