Tollalög

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:55:38 (3133)

1999-12-16 14:55:38# 125. lþ. 47.9 fundur 209. mál: #A tollalög# (tölvuvædd tollafgreiðsla) frv. 109/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987. Þess ber að geta að með lögum nr. 69/1996 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á ákvæðum tollalaga eins og fram kemur í athugasemdum við frv. Eitt af því sem var gert í afgreiðslu þess frv. á sínum tíma var að gera ráð fyrir því að 1. janúar 2000 væri búið að koma í rafrænt form öllum samskiptum við tollinn, þ.e. öllum sendingum á tollskjölum. Nú er orðið ljóst að sú þróun sem fyrirsjáanleg var á þeim tíma hefur ekki gerst eins hratt og menn ætluðu. Annars vegar er það að fyrirtæki hafa kannski farið hægar í en reiknað var með að koma upp svokallaðri SMT-tollafgreiðslu, eða EDI-tollafgreiðslu eins og menn segja stundum líka. Á hinn kantinn eru að koma fram nýjar leiðir til að koma tollskjölum með rafrænum hætti frá viðskiptavinum tollsins til hans. Þessar nýju leiðir munu hagnýta sér internetið meðan SMT-kerfið í dag hagnýtir sér svokallað X.400 kerfi. Menn vonast til þess að með því að finna leið til að nota internetið við að eiga rafræn samskipti við tollinn sé hægt að ná niður kostnaði við þau samskipti og þess vegna er nefndin sammála því að rétt sé að fresta því að gera kröfur um að öll samskipti við tollinn verði rafræn frá byrjun næsta árs til upphafs ársins 2001. Þetta er samþykkt með þeirri von að á þeim tíma náist að koma málum í það form að allir þeir sem eiga viðskipti við tollinn geti sætt sig við.