Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:08:49 (3137)

1999-12-16 15:08:49# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem kemur hjá hv. framsögumanni og formanni nefndarinnar að allur er varinn góður og nú í önnum þingsins erum við að leggja til lögfestingu á frv. til laga um skattfrelsi norrænna verðlauna og þar á meðal Nóbelsverðlauna og viljum við þar vera við öllu búin og standa klár á því ef það kæmi nú upp að einhver Íslendingur fengi þann heiður að taka á móti slíkum verðlaunum. Þetta er náttúrlega fyrirhyggja sem er mjög til fyrirmyndar.

Með frv. er verið að leggja til heimild fjmrh. til að undanþiggja tiltekin norræn verðlaun skattskyldu og það kemur raunar fram í athugasemdum með frv. að verið er að þrengja þær heimildir sem hæstv. ráðherra hefur haft til þess að undanþiggja skatti slík verðlaun (Gripið fram í: Nei. Það er verið að afnema þau.) Já, en engu að síður þegar verið er að telja upp með bindandi hætti eins og hér er gert hvaða verðlaun það eru sem njóta skattfrelsis, þá hef ég skilið málið þannig að heimild ráðherra hafi verið víðtækari til að undanþiggja verðlaun skatti. Því þarf í hvert einasta skipti sem koma upp einhver erlend verðlaun sem falla ekki undir þá upptalningu sem hér er lögð til, að bera það undir þingið, ef ég skil þetta mál rétt. Það stendur raunar í athugasemdum hjá fjmrh. út af frammíkalli ráðherrans. Hér stendur: ,,Hafa nokkur verðlaun verið felld brott þannig að lögin eru þrengri en síðastgildandi reglugerð um þetta efni, sbr. fylgiskjal I.`` Þetta eru því færri verðlaun og þrengri heimild sem ráðherrann hefur í þessu efni. (Gripið fram í.) Ég botna ekki almennilega í þessu frammíkalli ráðherrans. Ég held að hæstv. ráðherra verði eiginlega að setja sig á mælendaskrá og ræða þetta mál.

Ég tel ástæðu til að vitna í tvær umsagnir sem bárust um þetta efni, önnur frá Rithöfundasambandinu og hin frá Leikskáldafélagi Íslands. Hjá Rithöfundasambandinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Stjórnin telur afleitt að lögin skuli í raun þrengja reglurnar um skattfrelsi norrænna verðlauna.`` Síðan segir: ,,Í frv. er lagt til að heimild fjmrh. til að kveða á um það í reglugerð að önnur sambærileg menningarverðlaun séu undanþegin skattskyldu verði afnumin. Það þrengir enn frekar eldri lög og reglur og verður ekki séð að sú breyting hafi í heiðri samkeppnissjónarmið því þeir listamenn sem hljóta sambærileg verðlaun hljóta að eiga rétt á sambærilegri skattlagningu. Gömlu lögin og reglugerðirnar gera ráð fyrir nýjum verðlaunum og þróun, en nýju lögin setja punkt við stöðuna eins og hún er í dag og tæplega það. Stjórn Rithöfundasambands Íslands mælist til þess að betur verði hugað að nýrri lagasetningu í þessum efnum og enn fremur að hugað verði að lögum og reglum um skattfrelsi innlendra verðlauna, evrópskra verðlauna og alþjóðlegra verðlauna.``

Í umsögn frá Leikskáldafélaginu segir:

,,Stjórnin leggst gegn því að reglur um skattfrelsi norrænna verðlauna verði þrengdar og heimild ráðherra til að veita undanþágu um skattskyldu sambærilegra verðlauna verði afnumin. Má telja sanngjarnt að þeir listamenn sem hjóta sambærileg verðlaun og þau norrænu eigi einnig rétt á skattfrelsi. Stjórn Leikskáldafélagsins hvetur til þess, komi til nýrrar lagasetningar, að lögin fjalli einnig um skattfrelsi innlendra verðlauna og í ljósi aukinnar alþjóðavæðingar til evrópskra og alþjóðlegra verðlauna.``

Í nefndaráliti efh.- og viðskn. er að nokkru leyti tekið undir þau sjónarmið sem koma fram bæði hjá Rithöfundasambandinu og Leikskáldafélaginu, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur einnig nauðsynlegt að heildarúttekt verði gerð á innlendum og erlendum verðlaunum þar sem kannað verði hvort ástæða sé að undanþiggja fleiri verðlaun skattskyldu en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá telur nefndin eðlilegt að ef til koma verðlaun sambærileg þeim sem frumvarpið tekur til verði þau einnig undanþegin skattskyldu.``

Og einmitt með vísan til þess sem ég var að lesa úr nefndaráliti efh.- og viðskn., þá stöndum við, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og sú sem hér stendur, að þessu áliti.