Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:18:37 (3139)

1999-12-16 15:18:37# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér lítið mál. Eins og oft vill verða þá geta menn talað mikið um það vegna þess að það skilja það allir.

Hér er verið að breyta úr reglugerðarheimild yfir í lög. Það er til bóta þannig að ég styð þetta. Hins vegar er ég á móti þessum skattundanþágum eins og öllum skattundanþágum. Ég hef flutt frv. um að afnema sjómannaafslátt. Einnig hef ég flutt frv. um það að afnema skattfrelsi forseta Íslands. Ég mundi líka hafa flutt frv. um að afnema skattfrelsi utanríkisþjónustunnar, sem er afskaplega mikið um allan heim, en þar er Ísland víst bundið af Vínarsamkomulaginu þannig að það er víst ekki hægt og sá forréttindahópur sleppur því alltaf undan valdi löggjafans.

Þeir hópar sem ég hef nefnt eru hátekjuhópar og sömuleiðis er með það samkomulag sem norrænu þjóðirnar hafa gert um þessi verðlaun. Þeir sem fá svona verðlaun eru yfirleitt orðnir frægir, farnir að selja bækurnar sínar í stórum stíl, orðnir ríkir og teljast hátekjumenn. Einkennið á öllum þessum skattundanþágum er að hátekjuhóparnir njóta þeirra en þeir sem lægstu tekjurnar hafa skulu borga skatta undir drep. Fólk með börn og mikla ómegð sem þarf að hafa miklar tekjur til að framfleyta fjölskyldum sínum borgar mikla skatta en með þeim hefur enginn samúð. Ég á móti öllum svona undanþágum en fellst á frv. því hér er breytt frá reglugerðarheimild yfir í lagasetningu auk þess sem undanþágunum er fækkað.