Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:23:53 (3144)

1999-12-16 15:23:53# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Tilgangur þessa frv. er í raun að færa reglugerðarvald sem nú er falið fjmrh. inn í lög. Það er í samræmi við þær stjórnarskrárbreytingar sem mörg hver okkar stóðu að árið 1995. Engan skatt má á leggja nema með lögum, segir í stjórnarskránni og þar af leiðandi ekki heldur undanþágur frá slíkum skatti. Þess vegna er verið að vinna að því í ýmsum lögum og af ýmsum tilefnum að breyta því sem tíðkast hefur með reglugerðarvald einstakra ráðherra. Þannig tekur Alþingi sjálft ákvarðanir um það. Þá þarf að taka afstöðu til máls eins og þessa. Í fyrsta lagi: Á að undanþiggja einhver verðlaun skattskyldu? Í öðru lagi: Hvaða verðlaun eiga það þá að vera?

Ég lagði hér fram frv. sem í var tillaga um að ákveðin verðlaun væru undanþegin. Hún byggðist á reglugerð sem síðast gilti um þetta mál en var þó í nokkrum atriðum þrengri. Felld voru út verðlaun sem ekki var talin ástæða til að undanþiggja lengur, m.a. verðlaun sem við gátum ekki fengið neinn botn í hver væru, þ.e. enginn kannaðist við þau lengur og svo ýmislegt annað sem ekki þótti hafa þann heiðursbrag og talið er að verði að tilheyra verðlaunum af því tagi sem undanþiggja beri skattskyldu.

En hvað um það, niðurstaðan í vinnu efh.- og viðskn. er að þrengja þetta örlítið meira og fella brott ein verðlaun enn sem komið hefur á daginn að eru ekki peningaverðlaun. Ég er mjög sáttur við það. Ég geri engar athugasemdir við það sem kemur fram í nál. um að þessi mál verði áfram til skoðunar og að ef sambærileg verðlaun og þau sem hér eru undanþegin komi upp úr kafinu þá verði skoðað hvort til greina komi að þau verði jafnframt undanþegin, alþjóðleg verðlaun sem séu svipaðs eða sama eðlis og hér er um að ræða.

Aðalatriði málsins er að slíkt verður ekki gert nema með lögum. Fjmrh. getur þannig ekki, eins og ég gerði fyrr á þessu ári, gefið út reglugerð og undanþegið slík verðlaun skattskyldu. Það er málið varðandi þetta frv. Það er hið stóra mál í þessu. Þetta er liður í þeirri hreinsun sem er í gangi í öllum ráðuneytum. Þetta er liður í að flytja reglugerðarvald af þessu tagi inn í lögin þar sem það á heima, flytja það úr Stjórnarráðinu og á vettvang þjóðþingsins.