Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:05:57 (3150)

1999-12-16 16:05:57# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef eiginlega tvenns konar athugasemdir við formið á þessari brtt. Í fyrsta lagi þá sem þingmaðurinn nefndi sjálfur, þ.e. ekki er gott að flytja tillögu um breytingar á tekjustofnum á sama degi og fjárlagafrv. er afgreitt. Í öðru lagi tel ég vafamál að tillaga sem þessi uppfylli öll skilyrði sem nú eru gerð um rétta þinglega meðferð. Vissulega er þessi tillaga um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en hún er allt annars efnis en það lagafrv. sem hér er til meðferðar og því ekki hægt að segja að þetta efnisatriði hafi fengið þrjár umræður á Alþingi ef það yrði samþykkt. Ég tel því að hér sé um vafamál að ræða. Þó að ég viti vel að hér sömu lögin séu á ferðinni, þá er þetta annað efnislegt atriði. Þessi umræða hefur reyndar ítrekað komið upp í gegnum árin, hér áður fyrr þegar þingið starfaði í tveimur deildum. Þá var ekki gert eins mikið úr slíku efnisatriði vegna þess að hin deildin átti þá eftir að fjalla um breytingarnar, en þetta er kannski meira íhugunarefni nú til dags þegar þingið starfar í einni málstofu. Tökum sem dæmi veigamikla breytingu sem yrði gerð á tekjuskattslögunum samkvæmt brtt. sem væri flutt við 3. umr. við eitthvert skattamál sem þó væri allt annars efnis. Ég held að ef þar væri t.d. um að ræða íþyngingu, þá gætu þeir sem yrðu fyrir barðinu á henni hugsanlega höfðað mál og þá kæmi það til kasta dómstóla að kveða upp úr um það hvort brtt. sem flutt var við 2. eða 3. umr. uppfylli skilyrði þingskapa um að öll mál skuli fá þrjár umræður í þinginu. Ég vildi nefna þetta hér, herra forseti.