Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:26:39 (3157)

1999-12-16 16:26:39# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti einstæðum foreldrum, alls ekki. Ég held að þar séu margir í erfiðri stöðu. Hins vegar er búið að bæta stöðu þeirra mikið. Í tölunum sem hv. þm. las úr eru t.d. námsmenn á námslánum hjá LÍN. Námslánin eru ekki talin til tekna. Þeir hafa að sjálfsögðu mjög lágar tekjur.

Inn í þetta koma líka öll þau dæmi, ég þekki tvö dæmi þess, að fólk segist ekki búa saman en býr að sjálfsögðu saman. Þá er annar aðilinn gjarnan með mjög lágar tekjur og hinn með mjög háar tekjur. Þeir eru báðir einstæðir á pappírnum, annar reyndar einstæður með börn, þ.e. sá með lágu tekjurnar. Hinn er einstæður án barna, sá með háu tekjurnar. Þannig að þessi tölfræði getur verið svona og svona.

Hvort ég treysti mér til þess að lifa af 70 þús. kr.? Ja, það fer eftir því hvað ég leyfi mér. Það er alltaf þannig. Ég hef lifað af 70 þús. kr., herra forseti, þegar ég var í námi. Það þótti bara ekkert merkilegt. (JóhS: Og varstu með börn?) Ég var með tvö börn, já. En ég ætla ekki að blanda mínum málum inn í þetta, herra forseti, eins og hv. þm. vill alltaf gera. Ég held að ef fólk lendir í vandræðum þá höfum við sveitarfélögin og félagshjálp þeirra til að taka við og sveitarfélögin gera það yfirleitt nokkuð þokkalega.

Ég held að við þurfum líka að skoða stöðu foreldra, hjóna með börn, sérstaklega þar sem eru mörg börn og aðeins einn aðili getur unnið.