Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:28:27 (3158)

1999-12-16 16:28:27# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. iðulega draga fram einhverja aðila sem hann þekkir sem svindla á kerfinu, eftir því sem hann segir, með því að skilja til að ná sér í einhverjar bætur og alhæfa síðan yfir allan hópinn. Það eru alltaf til einhverjar undantekningar sem eru að reyna að spila á kerfið, bæði í þessum hópi og annars staðar. Eigum við að dæma alla sem skattsvikara þó að einhverjir steli undan skatti? Það má ekki alhæfa svona yfir allan hópinn.

Einstæðir foreldrar eru mjög stór hópur hjá félagsmálastofnunum og þurfa að leita sér aðstoðar þangað. Einstæðir foreldrar eru rúmlega þriðjungur þeirra sem leituðu sér aðstoðar hjá Reykjavíkurborg, svo dæmi sé tekið. Ég held að við verðum að viðurkenna að launin hér á landi og framfærslan, sem er mjög þung og erfið, eru þannig að tveir verða að standa undir framfærslu heimilisins til að hægt sé að skrimta út mánuðinn. Flestir viðurkenna að það þarf tvær fyrirvinnur.

Við sjáum það af niðurstöðu þessarar skýrslu að hjón eru með 250% hærri árstekjur en einstæðir foreldrar. Þó eru mörg hjón ekkert ofsæl af sínum launum. Margt hjóna- og sambýlisfólk er með meðaltekjur og hefur það skítt. Staðan er hins vegar svoleiðis að einstæðir foreldrar, mjög stór hópur þeirra, hafa það mjög slæmt. Allar tölur sýna að tekjur þeirra og kaupmáttur hefur hækkað miklu minna en hjá öðrum. Það hefur ekki verið mikið gert í þessu góðæri en við erum hér að gera tilraun til að rétta aðeins af hag einstæðra foreldra í þessari umræðu þegar við höfum örlítið skattalegt svigrúm til að taka á málum.