Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:30:58 (3159)

1999-12-16 16:30:58# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu gerir ráð fyrir því að heimilt verði að millifæra ónýttan persónuafslátt að fullu milli maka og að sú breyting komi til framkvæmda í áföngum að fullu á árinu 2003.

Allítarlegar umræður hafa farið fram um þetta efni og ætla ég ekki að fara að endurtaka það sem hér hefur verið sagt. Í fyrsta lagi vil ég þó nefna að þetta mál fjallar um grundvallaratriði í skattkerfinu og þá fyrst og fremst hvernig við viljum líta á hina skattalegu einingu. Viljum við líta á einstaklinginn sem skattalega einingu eða viljum við horfa til fjölskyldunnar? Ef við viljum horfa til fjölskyldunnar, hvernig viljum við skilgreina fjölskylduna? Ætlum við að líta á hjón eða sambýlisfólk sem skattalega einingu, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eða viljum við horfa til fjölskyldunnar allrar, barnanna líka?

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að í grundvallaratriðum er ég á því að líta á hjón sem tvo einstaklinga. Hins vegar finnst mér mikilvægt að styrkja fjölskylduna og verði það ofan á að samþykkja þetta frv. styð ég eindregið þá tillögu sem fram er komin frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Eins og fram kom í máli Margrétar Frímannsdóttur hefði ég verið meðflm. á þessari brtt. ef ég hefði verið á landinu en ég var erlendis í störfum fyrir Alþingi.

En í brtt., sem þingmennirnir leggja fram, er lagt til að sérstakar viðbótarbarnabætur sem eru nú greiddar til einstæðra foreldra með börnum umfram eitt, sé barnið yngra en sjö ára, verði hækkaðar um 20 þús. kr. ári. Með þessu móti yrði útgjaldaauki um 45 milljónir en þess má geta að þegar millifæranlegur persónuafsláttur er kominn til sögunnar að fullu, orðinn 100%, felur það í sér útgjaldaauka eða öllu heldur tekjutap fyrir ríkissjóð um 400 millj. kr.

Þegar litið er á umsagnir sem Alþingi hafa borist um þetta frv. er viðkvæðið yfirleitt það að aðilar hefðu kosið aðra forgangsröðun, jafnvel þau samtök sem eru fylgjandi þessari skattbreytingu leggja áherslu á aðra forgangsröðun. Það kemur t.d. fram í ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslands. Hið sama er upp á tengingnum hjá BSRB. Þar er reyndar vísað til þess að í ályktun síðasta þings BSRB um skattamál komi fram stuðningur við fullnýtanlegan persónuafslátt maka en auk þess er lagt til að heimilt sé að nýta persónuafslátt barna á aldrinum 16--21 árs. Í niðurlagi yfirlýsingar BSRB segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þeirra markmiða sem sett eru fram í stefnumörkun BSRB hafa samtökin talið brýnast að skattleysismörkin séu hækkuð og þau látin fylgja launaþróuninni í landinu og að gripið sé til annarra ráðstafana sem bæta stöðu tekjulágs fólks.``

Í svipaðan streng er tekið í ályktun Alþýðusambands Íslands sem er allítarleg. Þar er einnig vakin athygli á því að önnur forgangsröðun hefði verið heppilegri. Í álitsgerðum sem koma frá þessum tveimur stærstu heildarsamtökum launafólks er sérstaklega vikið að þróun skattleysismarka á liðnum árum og bent á að þau hafi ekki fylgt launaþróun í landinu og það hafi valdið því að skattbyrðar á tekjulágt fólk og millitekjuhópa hafi aukist.

Einnig er þess að geta að hlutur barnafólks hefur verið rýrður. Þrátt fyrir öll kosningaloforðin og allar heitstrengingarnar hafa barnabætur minnkað í krónum talið. Þannig er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar sem endanlega var samþykkt í morgun að barnabætur á næsta ári verði 320 millj. kr. lægri en þær eru á þessu ári. Í ljósi þeirrar forgangsröðunar, sem var í reynd samþykkt með atkvæðagreiðslu í morgun, hlýtur þessi tillaga ríkisstjórnarinnar að vekja nokkra furðu. Þannig var ákveðið að taka af fötluðum á fjórða hundrað milljónir á komandi ári. Á fjórða hundruð millj. kr. eru teknar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Framkvæmdasjóður aldraðra er einnig skertur og við þekkjum öll hvernig farið hefur með grunnlífeyri og tekjutryggingu fatlaðra og aldraðra á liðnum árum og hvað þar er á döfinni.

Ég vek athygli á því að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er röng. Ég mun hins vegar ekki greiða atkvæði gegn þessari tillögu ríkisstjórnarinnar en vek mjög eindregið athygli á þessu.

Hver vill borga skatta? sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hverjir eiga að borga skatta? Ég er mikill skattasinni sjálfur vegna þess að ég vil öfluga velferðarþjónustu í landinu. Ég vil verja þessum skatttekjum skynsamlega og ég vil að þeirra sé aflað á réttlátan hátt. Þar kemur forgangsröðunin jafnan fyrst til álita. Í þessu efni er fogangsröðunin röng þótt um málefnið kunni að ríkja allbreiður stuðningur.