Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:28:38 (3164)

1999-12-16 17:28:38# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. sem hæstv. fjmrh. talaði fyrir fyrir fáeinum dögum um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég ætla ekki á þessu stigi máls að hafa um frv. mörg orð. Ég hef reyndar áður talað í þessu máli og vakið athygli á því að með einhliða ákvörðun sinni um að reyna að keyra í gegnum þingið breytingu á þeim leikreglum sem hafa verið við lýði um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá er hæstv. fjmrh. í raun að rifta samkomulagi sem gert var á sínum tíma í lok nóvembermánaðar árið 1986 á milli þriggja aðila, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka launafólks, BHM, BSRB og Sambands íslenskra kennarafélaga, og í þriðja lagi fjmrn. Þetta samkomulag var undirritað hinn 24. nóv. 1986, ef ég man rétt. Í kjölfarið voru samþykkt á Alþingi lög sem byggðust algerlega á þessu samkomulagi. Núna ákveður hæstv. fjmrh. að taka þessi lög til endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þvert á það sem aðrir samningsaðilar hafa óskað og vísa ég þar sérstaklega til heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Heildarsamtök opinberra starfsmanna lögðu til ákveðna málamiðlun í þessu máli en henni var hafnað af hálfu hæstv. fjmrh.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta núna. Ég mun að sjálfsögðu hafa um þetta langt mál ef málið kemur til 2. umr., mun þá hafa um það mjög langt og ítarlegt mál. En mér finnst eðlilegt að málið fari til umfjöllunar í nefnd þingsins og vonandi fær það að sofna þar.

Hins vegar vek ég athygli á því að hæstv. fjmrh. vakti máls á því, bæði við talsmenn fyrrnefndra samtaka og hér á Alþingi einnig, að hann væri því fylgjandi að taka þessi lög til endurskoðunar í heild og þá væntanlega í samráði við heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Ég er því mjög fylgjandi að svo verði gert og mér er kunnugt um að viðkomandi samtök eru það líka. Í trausti þess að slík heildarendurskoðun fari fram og frv. hæstv. ráðherra sem hér er til umfjöllunar fái að hvíla þar til niðurstaða fæst, læt ég máli mínu lokið að sinni.