Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:31:55 (3165)

1999-12-16 17:31:55# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er fjarri lagi að tala í þessu sambandi um samningsrof. Samkomulagið sem var gert í nóvember 1986 var efnt. Það byggðist á því að fjmrh. lofaði að beita sér fyrir því að leggja fyrir Alþingi frv. sama efnis og þessir aðilar höfðu komið sér saman um. Alþingi lögfesti síðan þau drög að frv. sem aðilar höfðu orðið ásáttir um. Um annað gat þetta samkomulag að sjálfsögðu ekki snúist vegna þess að menn geta ekki samið réttinn af Alþingi til þess að setja lög í landinu.

Nú verð ég að biðja hv. þm. að svara okkur því hvort hann ætli í þessu máli að vera meiri þingmaður eða formaður BSRB. Ég hef tekið eftir því að hann hefur í blaðaskrifum sínum gætt þess að tala ekki um það að Alþingi megi ekki breyta þessum lögum. Hann hefur hins vegar í þessum ræðustól, sérstaklega fyrr í þessari umræðu fyrir rúmlega viku síðan, talað um vald, að verið væri að taka þetta mál hér í gegnum þingið með valdi. Hann hefur talað um það sé gert með offorsi og hann hefur talað um að það sé samningsbrot.

Skömmu eftir að þeirri umræðu lauk barst mér í hendur yfirlýsing frá stjórn þeirra samtaka þar sem hann er formaður, stjórn BSRB, sem hann hlýtur þá að hafa haft hönd í bagga með eða borið ábyrgð á, þar sem því er lýst yfir að þetta frv. sé samningsbrot af hálfu fjmrh., einhliða riftun á samkomulagi sem hafi verið gert árið 1986.

Nú vil ég spyrja hann: Er hann þessarar skoðunar? Er hann þeirrar skoðunar að ekki megi breyta lögum á Alþingi um þessi málefni nema með samkomulagi við þessi samtök? Ég tel að svo sé auðvitað víðs fjarri, að ekki sé hægt að afsala sér löggjafarvaldinu með þeim hætti.

Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði við fyrri hluta umræðunnar. Það er sjálfsagt að eiga gott samstarf og samráð við þessi samtök. Ef hægt er að ná samkomulagi þá er það fínt, og leggja það síðan fyrir Alþingi sem hefur þá auðvitað vald á því að breyta málinu ef það kærir sig um. Það er til heilla fyrir málið. En hvernig svarar þingmaðurinn þessu?