Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:34:10 (3166)

1999-12-16 17:34:10# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Það er ekki bannað með lögum að breyta lögum og Alþingi eitt getur ákveðið hvernig það fer fram í þeim efnum. Alþingi hefur endanlegt vald að sjálfsögðu, að sjálfsögðu finnst mér það.

Hins vegar boðar sú afstaða sem hér kemur fram í máli hæstv. ráðherra breyttar vinnuaðferðir. Það hefur verið þannig að reynt hefur verið að skapa sátt um þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði. Síðasta ríkisstjórn brá reyndar út af þessari venju þegar hún flutti frv. um stéttarfélög og vinnudeilur í ósátt við heildarsamtök launafólks í landinu og það hryggir mig mjög ef hæstv. fjmrh. ætlar nú að sigla í kjölfarið sjálfur, hafa forgöngu um að breyta þessum lögum einhliða án þess að reyna að ná samkomulagi við hlutaðeigandi aðila.

Mér finnst það mjög undarlegt þegar þrír aðilar, fjmrh. eða fjmrn., Samband ísl. sveitarfélaga og samtök launafólks, koma sér saman um leikreglur, um hvaða leikreglur skuli gilda, og sá aðili sem hefur aðgang að Alþingi beitir sér fyrir því að þessar leikreglur verði lögfestar, að þá skuli hann leyfa sér nú einhliða að rifta þessu samkomulagi. Mér finnst þetta í hæsta máta ósvífið. Og það er alveg rétt sem hann vitnaði í mín orð fyrr við þessa umræðu. Ég viðhafði þessi orð og stend við þau, því miður.