Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:36:16 (3167)

1999-12-16 17:36:16# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig getur þingmaðurinn haldið því fram annars vegar að enginn geti bannað Alþingi að setja lög og hins vegar að það sé samningsbrot að flytja frv. um að breyta lögum? Samkomulagið frá 1986 var að sjálfsögðu efnt af þeim fjmrh. sem þá sat.

En það getur ekki verið samningsbrot að leita til Alþingis um að breyta þessum lögum núna 13 árum seinna. Ég tel að þingmaðurinn hafi í fyrri hluta síns svars raunverulega afturkallað það sem stendur í yfirlýsingu stjórnar BSRB um samningsbrot vegna þess að það getur ekki verið neitt samningsbrot í þessu fólgið. Það er algjörlega af og frá að túlka það svo að með því að skrifa undir samning í nóvember 1986 hafi verið gefið eitthvert fyrirheit af hálfu stjórnvalda um að aldrei framar yrði flutt frv. um þessi mál nema að undangengnu einhverju samkomulagi.

Herra forseti. Hins vegar vil ég endurtaka það sem ég sagði við fyrri hluta umræðunnar og var að reyna að koma að í andsvari mínu áðan að ég er tilbúinn til viðræðna við samtök opinberra starfsmanna um heildarendurskoðun þessara mála. Ég hef sagt það við forustumennina. Ég hef sagt það hér í þinginu og þar með hef ég sagt það á tvenns konar vettvangi við hv. þm. því að hann situr báðum megin alveg eins og ég, bæði í þinginu og við þetta borð. Og ég skal endurtaka það að ég er tilbúinn til að vinna að slíku. Ég tel að það sé heillavænlegt að gera það í samráði og samstarfi við samtökin. En það er ekki þar með sagt að þingið megi ekki breyta þeim lögum sem það hefur sjálft sett um þetta efni eins og önnur.