Þuríður Backman:
Herra forseti. Brot á drengskaparheiti eða brot á samkomulagi, þetta er e.t.v. túlkunaratriði. En lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru vitaskuld niðurstaða samkomulags á milli félags opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins á sínum tíma. Hér er verið að taka eina greinina út úr. Auðvitað er löggjafanum heimilt að breyta lögum. En hér er verið að taka á því sem gengur undir nafninu hópuppsagnir þannig að hópuppsagnir verði með öllu bannaðar.
Það er alveg skýrt að öll stéttarfélög í landinu standa gegn hópuppsögnum. Það er ekki aðferð sem stéttarfélög vilja beita. En stéttarfélög ráða ekki alltaf yfir sínum félagsmönnum og það er eitt ákveðið mál sem hefur orðið til þess að mönnum hefur þótt ástæða til að gera þessa breytingu á lögum til að taka alveg fyrir að fólk geti beitt hópuppsögnum.
En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þegar frv. var lagt fram þá getur verið erfitt að meta hvenær um hópuppsögn er að ræða, sérstaklega þegar kemur að litlum vinnustöðum og að þessum aðlögunarsamningum. Ef á vinnustað starfa fimm eða tíu manns, sérfræðingar á ákveðnu sviði og menn gefast upp, hvenær telst það þá hópuppsögn. Þegar tveir hafa sagt upp, þrír eða þegar það fer að hafa áhrif á starfsemi stofnunarinnar? Ég vil bara leggja áherslu á það aftur að það verði vel skilgreint hvað sé hópuppsögn.
En hverjir beita þessu valdi? Því miður eru það frekar kvennastéttir. Okkur konum hefur gengið erfiðlega að ná fram jafnrétti í launum og ný aðferð við samningagerð, aðlögunarsamnningarnir hafa ekkert breytt því. Við stöndum ekkert betur að vígi og ef eitthvað er þá gæti verið að þessir samningar eða samningsgerðin væri verri fyrir okkur en það sem áður var. Það eru sem sé konur og láglaunahópar sem grípa til þessa ráðs.
Kynbundinn launamunur er í dag allt að 20% milli karla og kvenna. Og þessi launamunur kynja í sambærilegum stöðum með sömu kröfur, sömu menntun og sömu hæfni verður auðvitað til þess að konum misbýður. Þetta er spurning um hvenær maður hættir að láta vaða yfir sig, hvenær maður bara hættir, segir upp og vill fara. Það er þá kannski ekki bara einni konu eða tveimur, heldur e.t.v. heilum hóp sem misbýður og vill fara.
Eins og ég sagði áðan styðja stéttarfélögin ekki hópuppsagnir og hafa aldrei gert. En það þarf að endurskoða lögin í heild sinni, ekki bara þetta eina ákvæði, heldur þarf að taka lögin öll upp. Það þarf að skoða þau með tilliti til annarra þátta eins og verkfallsréttar opinberra starfsmanna þannig að réttindi opinberra starfsmanna verði þá svipuð því sem er hjá launamönnum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins er verkfallsréttur opinberra starfsmanna svo bundinn. Það er ekkert hægt að draga til baka, eins og kom fram í umræðunum um daginn. Hann er fyrir alla stéttina, fyrir allan hópinn. Það kemur að einhverjum ákveðnum punkti þegar samningar hafa ekki náðst og þá er verkfall boðað. Það er ekki hægt að draga út einstakar stofnanir þar sem vandinn er kannski hvað mestur heldur verða allir að taka þátt í uppsögnum, jafnvel út af einum vinnustað. Þetta þarf að skoða samhliða heildarpakkanum. Það er tekið mjög hart á verkfallsbrotum á hinum almenna vinnumarkaði og það er hluti af þessari heildarendurskoðun að hið sama gildi um opinbera starfsmenn og launamenn. Þetta er það sem ég vildi að kæmi hér fram varðandi þessa umræðu og ég hvet til þess að nefndin sem fjallar um þetta taki málið upp í heild en líti ekki eingöngu á þessa afmörkuðu grein, 14. gr. laganna.