Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:45:30 (3170)

1999-12-16 17:45:30# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa til máls við þessa umræðu fyrir innlegg þeirra í þetta mál. Ljóst er að það eru skiptar skoðanir en þó ekki svo mjög um efni málsins. Ég hef ekki heyrt þingmenn taka upp hanskann fyrir það sem þetta frv. á að koma í veg fyrir, þ.e. það sem við köllum fjöldauppsagnir starfsmanna. Við höfum ekki talað um þetta sem hópuppsagnir vegna þess að það er annað hugtak í lögum sem varðar uppsagnir af hálfu vinnuveitenda. Ég hef ekki heyrt marga taka upp hanskann fyrir slíka aðgerð. Því sem menn hafa kannski mótmælt hér er að þetta mál sé ekki flutt fyrir hönd þeirra sem um það hafa samið fyrir fram heldur sé það flutt af forráðamanni þessara mál á vettvangi ríkisstjórnarinnar, þ.e. fjmrh. fyrir hennar hönd.

Það er búið að fara rækilega yfir þann þátt málsins. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem jafnframt er formaður BSRB, að hann ætli að láta rækilega til sín taka í þessu máli. Hann sagði að ef efh.- og viðskn. gerðist svo djörf að afgreiða þetta mál út úr nefndinni þá ætlaði hann að flytja hér mjög langt mál. Hann hyggst ekki láta frv. þetta yfir sig ganga nema um það hafi verið samið áður. Hann hefur að sjálfsögðu sem þingmaður fullan rétt á að haga störfum sínum hér eins og hann kýs.

Ég vil undirstrika aðalatriðin í þessu. Hér er á ferðinni lagabreyting sem við teljum mjög brýna. Hún er enn brýnni en áður vegna þess að fram hefur komið af hálfu Félagsdóms að núgildandi lagaákvæði eru ófullnægjandi að því er þetta varðar, þau ná ekki utan um vanda sem viðurkennt er að sé fyrir hendi. Að mínum dómi er ekki eðlilegt að gera kröfu til stéttarfélaganna um að þau taki á sig meðábyrgð í því að tillaga sem þessi sé flutt. Ég geri ekki kröfu til þeirra um það þó ég hafi að sjálfsögðu kynnt þeim þetta frv.

Um hugsanlegar millileiðir svokallaðar sem þingmaðurinn nefndi varð ekki samkomulag. Ég vil undirstrika að af minni hálfu stendur það opið að efna til viðræðna um hvernig hægt væri að endurskoða þessi lög í heild og bera slíka niðurstöðu upp hér á hinu háa Alþingi. Þá kemur að sjálfsögðu mjög til álita að líta til hinna almennu laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þau lög eru þó ekki einhlít, eins og ég sagði hér í framsöguræðu minni, að því er varðar málefni opinberra starfsmanna vegna þeirrar sérstöðu sem störf þeirra njóta að mörgu leyti og þeirra sérstöku starfa sem um er að ræða í opinberri þjónustu við almenning í landinu.

Hvað sem því líður þá tel ég brýnt og æskilegt að þetta frv. gangi til efh.- og viðskn. Ég er þakklátur fyrir að þingið geti afgreitt málið fyrir jólahlé og óska eftir því við efh.- og viðskn. að hún leiti skriflegra umsagna um þetta mál hjá öllum þeim sem láta sig þessi mál varða, þar á meðal hagsmunasamtökum opinberra starfsmanna, aðilum hins almenna vinnumarkaðar og fleirum þeim sem málið snertir, t.d. Sambandi sveitarfélaga og sambærilegum aðilum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv., herra forseti. Ég vænti þess að þetta mál og önnur er varða samskipti ríkisins og félaga og bandalaga starfsmanna þess verði farsæl og að sá tónn sem kom fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar verði ekki ráðandi þegar við förum að tala saman um þessi mikilvægu mál, hvort sem það er hér í þingsalnum eða á öðrum vettvangi.