Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:50:18 (3171)

1999-12-16 17:50:18# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. fjmrh. Ég vona að hvorki sá tónn sem fram kom í mínu máli né í máli og framgöngu hæstv. fjmrh. verði ráðandi í samskiptum aðila á vinnumarkaði. Ég vona sannarlega að svo verði ekki. En að sjálfsögðu verður það svo ef farið er fram með þessum hætti.

Ég tók hins vegar líka eftir ákveðnum sáttatón í máli hæstv. fjmrh. Hann ítrekar að efni sé til að taka lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna til endurskoðunar og leita eftir samkomulagi um það mál. Ég kem hingað fyrst og fremst upp til þess að lýsa ánægju með það. Ég vona að samningar takist og sátt um breytingar á þeim leikreglum sem eru við lýði.