Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:20:22 (3179)

1999-12-16 18:20:22# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel enga ástæðu til þeirra geðshræringa sem komu fram í máli hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar. Það varð niðurstaða nefndarinnar eftir ítarlega umræðu að þetta mál yrði tekið til skoðunar á vorþingi í tengslum við frv. um breytingu á lögum um staðfesta samvist.

Það var niðurstaða mín þegar ég tók ákvörðun í því máli að þetta frv. til ættleiðingarlaga væri það mikilvægt að það væri á engan máta nokkrum manni greiði gerður að fresta því á meðan unnið væri að breytingum varðandi ættleiðingar samkynhneigðra og ég stend við það.

Hins vegar kom það líka fram í máli mínu í nefndinni að þegar það frv. kemur til umfjöllunar á vorþingi yrði ég tilbúin til þess að veita því brautargengi. Ég tel hins vegar að ítarleg umræða þurfi að fara fram í þinginu og jafnframt þurfi umræða að fara fram í þjóðfélaginu varðandi stjúpættleiðingar og frumættleiðingar því að skiptar skoðanir virðast vera um það mál. En ég ítreka að ég er tilbúin að taka þátt í þeirri umræðu á vorþingi og veita því brautargengi, sérstaklega varðandi stjúpættleiðingu.