Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:22:14 (3180)

1999-12-16 18:22:14# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:22]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég rakti hér nokkur lagaleg rök fyrir því að við ættum að heimila ættleiðingu hjá samkynhneigðum. En hv. þm. gat um geðshræringu. Ég spurði einfaldra spurninga en fékk engin svör. En ef geðshræring er í mínu máli þá vil ég að hv. þm. muni að það er líka geðshræring hjá því fólki sem fær þau skilaboð frá Alþingi að sumir séu rétthærri en aðrir þegar til þessa viðkvæma máls kemur. Og ég vil einmitt ekki að við níðumst á geðshræringum og tilfinningum þessa fólks.

Hv. þm. talaði um umræðu sem þyrfti að fara fram í þjóðfélaginu. Ég viðurkenni það, það er gott að umræða fari fram í þjóðfélaginu. En ég legg áherslu á að við eigum hér að ganga fram fyrir skjöldu, við eigum einmitt að sýna fordæmi í þjóðfélaginu. Ég gat áðan um fordæmi sem maður verður vitni að á stöðum eins og í Evrópuráðinu í Strassborg þar sem menn ganga á undan með góðu fordæmi og láta ekki kúga sig af almenningsáliti heldur ryðja góðum málum braut. Þetta finnst mér að við ættum að gera á hinu háa Alþingi og ganga þannig á undan með góðu fordæmi.

Ég fullyrði að andinn gagnvart samkynhneigðum í íslensku þjóðfélagi hefur sem betur fer gjörbreyst. Það er bæði vegna þess að við lifum í upplýstu og góðu samfélagi og að samkynhneigðir hafa barist málefnalega og heiðarlega fyrir málstað sínum.