Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:24:56 (3182)

1999-12-16 18:24:56# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, KF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég er ein af nefndarmönnum í allshn. og langar aðeins að segja nokkur orð í tengslum við það nál. sem kynnt var af formanni nefndarinnar um frv. til laga um ættleiðingar.

Eins og fram kom hjá framsögumanni og formanni er meginefni frv. að lögfesta ákvæði Haag-samningsins hérlendis og í nál. kemur fram að aðild Íslands að samningnum skipti höfuðmáli svo unnt sé að fá til ættleiðingar börn frá fleiri löndum en nú. Hér á landi bíða margir foreldrar eftir því að geta ættleitt börn og eins og komið hefur fram í umræðunum er talið að þeir séu um 1.500.

Það sem var áberandi í umfjöllun allshn. var í rauninni hvað menn voru samstiga um efni frv. Þar lágu umsagnir frammi frá því fyrr á árinu og sömuleiðis fékk nefndin til sín nokkurn fjölda fólks til að ræða þetta mál.

Það sem mestur tími fór samt í hjá nefndinni voru málefni samkynhneigðra, einkum vegna þess að ábending hafði borist nefndinni um það að með því að samþykkja þessi lög væri verið að brjóta mannréttindi á samkynhneigðum því að þeir yrðu undanþegnir og yrðu sennilega eini hópurinn í þjóðfélaginu sem ekki gæti ættleitt börn, þ.e. samkynhneigðir í staðfestri samvist. En það kom sömuleiðis fram að jafnvel þótt lögum um ættleiðingu yrði breytt með það fyrir augum að veita samkynhneigðum þessi réttindi þá væru lögin um staðfesta samvist orðuð þannig að þau undanþægju hvort sem er lög um ættleiðingar.

Niðurstaða nefndarmanna var því að samþykkja frv. til laga um ættleiðingar með þeim brtt. sem framsögumaður kynnti en jafnframt lýstu menn því yfir að þeir hefðu vilja til að fjalla nánar um þetta atriði sem ég gerði hér að umtalsefni.

Í umræðum hefur komið fram og það kemur fram í nál. að verið er að endurskoða lög um staðfesta samvist. Það er reyndar gert fyrst og fremst út af ákvæðum um ríkisborgararétt en það er samt ljóst að lögin verða tekin upp. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa yfir þeirri skoðun minni að mér finnst eðlilegt um réttindi samkynhneigðra hvað þetta atriði varðar verði tekin til meðhöndlunar síðar á þessu þingi og stend því að þessu nál.

Ég get auðvitað ekki mælt fyrir munn annarra nefndarmanna, hvað þá annarra þingmanna, en ég tel samt að allshn. eins og hún er nú skipuð sé hlynnt því að stjúpættleiðingar verði heimilaðar. Og það má benda á að stjúpættleiðingar hafa verið samþykktar á Norðurlöndunum, að vísu einungis í Danmörku en eru til umræðu annars staðar. Það liggur fyrir frv. í Hollandi frá því snemma í nóvember um fullar ættleiðingar fyrir samkynhneigða og í Noregi og Svíþjóð er sömuleiðis verið að ræða þetta mál. Nokkur fylki í Bandaríkjunum leyfa ættleiðingar samkynhneigðra og sömuleiðis er rýmra um þetta í Bretlandi en hér.

Eins og við vitum er nú þegar leyft sameiginlegt forræði. Hvað er það sem breytist við það að stjúpættleiðing verði leyfð? Jú, það er ef annað foreldrið sem hefur forræði yfir barni eða börnum fellur frá, þá er erfðaréttur barnanna tryggður, þ.e. löglegur erfðaréttur eftir báða foreldra er skýr.

Það var heilmikil umræða í allshn. þegar gestir komu til okkar, einkum frá samkynhneigðum stúdentum, um aðstæður þess fólks sem hér um ræðir. Við tölum um að um 1.500 foreldrar bíði eftir að ættleiða börn samkvæmt Haag-sáttmálanum og þeim yrði gert það kleift með því. En samkynhneigðir á Íslandi með börn í sinni umsjá eru metnir kannski um 1.000--1.300 talsins. Það er jafnvel talið að um 450 til rúmlega 600 börn búi hjá foreldrum af sama kyni og það er þeirra veröld.

Fordómar samfélagsins eru auðvitað aðalvandamálið því að vandamál sem þessi börn búa við eru langt í frá meiri en annarra barna. Þau eiga góða foreldra og erfiða foreldra eins og önnur börn í þjóðfélaginu. Ef eitthvað er þá sýna rannsóknaniðurstöður að börn sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum geti verið umburðarlyndari, sveigjanlegri og skilningsríkari en önnur börn. En það er fjarri því að þau séu í meiri hættu að einhverju leyti en önnur börn í þjóðfélaginu.

Ég lít þess vegna á stjúpættleiðingar samkynhneigðra sem réttindamál barnanna fyrst og fremst en ekki foreldranna. Ég kem hér upp til að lýsa vilja mínum í þessu máli en ég tel að þau skilaboð sem samkynhneigðum foreldrum, eins og öðrum foreldrum í, berast frá Alþingi séu fyrst og fremst þau að allshn. stendur saman að þessu áliti og vill leysa þann vanda sem foreldrar standa frammi fyrir sem vilja ættleiða börn nú, og að allshn. hafi með þessu nál. lýst þeim vilja að fjalla nánar um ættleiðingar og stjúpættleiðingar samkynhneigðra og muni gera það seinna á þessum vetri.