Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:32:41 (3183)

1999-12-16 18:32:41# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Þeim mun meira legg ég upp úr því að hlýða á mál hæstv. dómsmrh. um frv. og hvaða afstöðu hæstv. dómsmrh. hefur til þess hluta greinargerðar allshn. með frv. sem fjallar um að lög um staðfesta samvist verði tekin til umfjöllunar á þinginu á næstu mánuðum og til afgreiðslu þar. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. forseta Alþingis: Hvað líður ferðum hæstv. ráðherra? Ég hef áður komið þessari ósk minni á framfæri.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa að það hafa verið gerðar ráðstafanir og dómsmrh. mun vera á leiðinni í þingsal.)

Þær spurningar sem ég vil bera fram við hæstv. dómsmrh. eru þær sem ég nefndi hér áðan: Hvaða afstöðu hefur hæstv. dómsmrh. til þess hluta greinargerðarinnar þar sem segir til um framhaldið?

Þetta frv. um ættleiðingar er að ýmsu leyti mjög gott. Það fengum við staðfest í ítarlegri yfirferð yfir frv. með margvíslegum hagsmunaaðilum. Fram komu ýmsar ábendingar um breytingar á einstökum lagagreinum og margar þeirra hafa verið teknar til greina.

Hver er helsti kostur þessa frv.? Hann er sá að verði það að lögum mun það tryggja réttarstöðu foreldra og barna. En það gildir aðeins um sum börn. Við tölum oft um að verið sé að mismuna fólki eftir kynferði. Í þessu frv. er fyrst og fremst verið að mismuna börnum. Það er verið að mismuna börnum eftir kynhneigð foreldranna. Við munum aldrei banna fólki með lögregluvaldi að eignast börn eða ala upp, það munum við aldrei gera. Það verður aldrei gert. Þetta frv. fjallar ekki um hvar börn koma til með að alast upp. Þau fjalla um það eitt að tryggja réttarstöðu barna samkynhneigðra foreldra. Um það fjalla þessi lög.

Við, nokkrir alþingismenn, leituðum álits samtaka samkynhneigðra, fulltrúa Samtakanna '78 og samtaka í Háskóla Íslands, sem ég man nú ekki hvað heita. (Gripið fram í: LSS) LSS. Við leituðum afstöðu þeirra til þessa máls. Hún var mjög afdráttarlaus. Hún var sú að um mannréttindi gerði maður ekki málamiðlanir.

En erum við þá að gera málamiðlanir? Ég, eins og aðrir sem skrifa undir nál., styð það og styð framgang þess. Hef ég þá gert málamiðlun um mannréttindi? Nei, það hef ég ekki gert. Ég er alveg sannfærður um að nefndarmenn eru á einu máli í þessu efni. Ég er sannfærður um góðan hug allra þeirra sem komu þar að máli. Ég er líka sannfærður um að menn hafa í brjósti sér vissu fyrir því að þetta mál komi til kasta þingsins á næstu mánuðum og við fáum farsæla niðurstöðu í því. Ég trúi því sjálfur og á þeirri forsendu styð ég málið.

Ég hefði viljað heyra álit hæstv. dómsmrh., ekki vegna þess að ég vantreysti þeim sem sitja í nefndinni og alls ekki þeim sem stýrði þar málum, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, heldur vegna þess að mér finnst að hæstv. dómsmrh. eigi að sýna þessu máli þá virðingu að staðfesta það sem við teljum okkur vita, að lög um staðfesta samvist verði tekin upp hér á Alþingi og tryggt verði að niðurstaða fáist. Ég er ekki að ætlast til að hæstv. dómsmrh. segi okkur nákvæmlega hver niðurstaðan verði, að sjálfsögðu er það Alþingis að taka um það ákvörðun en ég vil heyra álit hæstv. dómsmrh. í þessu efni.

Þess vegna segi ég: Allshn. er ekki að gera málamiðlun um mannréttindi með því að samþykkja þetta frv.