Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:49:14 (3188)

1999-12-16 18:49:14# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins að leiðrétta þann misskilning sem er kannski þegar kominn í ljós. Mannréttindabrotið gagnvart samkynhneigðum er í 6. gr. laganna um staðfesta samvist. Því má heldur ekki gleyma að hjón eru venjuleg hjón, karl og kona, og þeir sem eru í staðfestri samvist. Ákvæðið um hjón í ættleiðingarlögunum á því alveg klárlega við um þann hóp þegar við erum búin að taka út það mannréttindabrot sem við erum að ræða um og til þess þarf að opna lögin um staðfesta samvist. Það er því alveg á hreinu. Við ræddum auðvitað um þessa lagatæknilegu hlið, þ.e. hvort við ættum að koma með þessa breytingu og segja ,,þrátt fyrir``. Fyrir því er ekki meiri hluti. Mér finnst málið vera það mikilvægt að við séum ekki að láta fella svona hluti í þinginu. Við eigum að ná samkomulagi um málið, að það verði tekið upp og við bara stöndum við það.