Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:52:24 (3192)

1999-12-16 18:52:24# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. flutti mál sitt hér vel og skörulega og viðhorf hennar komu mjög skýrt fram. Ég held ég geti sagt það og meina það fullkomlega að mjög sambærileg viðhorf eru mjög ríkjandi í allshn. Það liggur hins vegar fyrir að eins og lögin eru nú úr garði gerð þá hefðum við þurft að taka upp lögin um staðfesta samvist. Það er einfaldlega þannig að í þeim lögum er ákvæði sem gerir það að verkum.

Spurningin var því einfaldlega þessi: Var ástæða til að tefla máli, sem kannski er ekki alveg einhugur um hér á þinginu, í tvísýnu rétt í aðdraganda jólanna? Það má því kannski orða það þannig að spurningin hafi verið um hvað var pólitískt mögulegt að gera. Og ég segi það fullum fetum að ég trúi því og treysti að það samkomulag sem náðist í þessari nefnd muni verða niðurstaðan og að við munum sjá þá niðurstöðu í vor að þetta verði orðið að lögum.

En við skulum heldur ekkert ganga neitt að því gruflandi að hvað svo sem við gerum á hinu háa Alþingi þá liggur það fyrir að við breytum ekki raunveruleikanum úti í samfélaginu og þau börn sem nú búa hjá foreldrum í staðfestri samvist munu gera það áfram hvort sem við samþykkjum þessi lög núna eða ekki. Ég held í ljósi þess hvernig málið liggur og hvernig staðan á Alþingi er sé skynsamlegt að afgreiða þetta mál til ættleiðinga með þessum hætti. Hér hafa stór orð verið látin falla, bæði af nefndarmönnum og öðrum, um að við það verði staðið að þetta verði orðið að lögum í vor, og ég trúi því og treysti að svo verði.