Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:53:59 (3193)

1999-12-16 18:53:59# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að ég er ekki meðmælt því að það eigi að tefla þessu máli í neina tvísýnu í vor og það hefði ekki átt að gera það. Ég segi auðvitað, þó að ég hefði viljað sjá hér öðruvísi að farið, að ef þetta er sú niðurstaða sem fólk treystir sér til að ná núna þá er hún af hinu góða og ég styð hana.

En það er alltaf svo, herra forseti, þegar um stór mál er að ræða þar sem við þurfum svolítið að skoða okkar dýpstu rök fyrir tilverunni að þá gerist það að við þurfum stundum að henda gömlum hugsunum. Við þurfum stundum að henda einhverju sem við höfum dragnast með í gegnum lífið og hefur kannski ekki reynst okkur eins vel og skyldi. Ég líki því við það að þetta sé eins og að fara úr gömlum fötum því við erum að breyta hugsunarhætti. Við erum að fara úr gömlum fötum og í ný. Það er stundum erfitt, við vitum það sjálf, að byrja að ganga í nýjum skóm. En þeir venjast á endanum og verða mjúkir. Og svo ef þeir verða of þröngir þá er líka bara ágætt að fara úr þeim og leyfa loftinu að leika um tærnar.