Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:56:27 (3195)

1999-12-16 18:56:27# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég flutti mitt mál fyrir fáeinum mínútum, reyndar nokkuð mörgum mínútum núna, og fleiri en einn og fleiri en tveir hafa komið í ræðustól og tjáð sig um þetta mál. En í upphafi míns máls óskaði ég eftir því að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur þessa umræðu vegna þess að ég beindi fyrirspurnum til ráðherrans og óskaði eftir að heyra viðbrögð ráðherrans. Mér var þá sagt að ráðherrann væri á leiðinni, að ráðherrans væri að vænta hingað á hverri mínútu og nú er sú stund upp runnin því ég ætlaði að óska eftir því að hlé yrði gert á þessari umræðu ef hæstv. dómsmrh. kæmi ekki á staðinn, í þingsal.

Við erum að afgreiða hér lagafrv. um ættleiðingar. Það ber öllum saman um að mikil réttarbót er í þessu frv. fólgin. Flestum málsaðilum sem hafa tjáð sig um þetta við allshn. ber saman um að æskilegt sé að hraða framgangi þessa máls og lögfesta frv.

Sérstaklega hafa þó risið deilur um eitt atriði og það mjög miklar deilur og það er um rétt samkynhneigðra til að ættleiða börn. Við höfum sum stillt þessu upp þannig að e.t.v. sé réttara að tala um réttindi barnanna en réttindi hinna fullorðnu.

Niðurstaða nefndarinnar varð sú --- ég á aðild að því nál. og styð framgang málsins --- að í ljósi þess að lagt yrði fram frv. um staðfesta samvist á næstu mánuðum með það fyrir augum að lögfesta breytingar á þeim lögum fyrir vorið, þá mundum við sætta okkur við þá niðurstöðu að ekki yrðu gerðar þær lagabreytingar eða þær tillögur um lagabreytingar settar fram sem við flest í nefndinni hefðum óskað eftir. Það er vitað að ráðherra í hverjum málaflokki hefur mikið að segja, þó að það sé að sjálfsögðu Alþingi sem endanlega hefur orðið. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvaða áform ráðherrann hefur í þessum efnum. Ég er ekki að biðja um neinar endanlegar niðurstöður. Ég er ekki að biðja um yfirlýsingar um endanlegar niðurstöður en ég vil fá það staðfest hér í ræðustól af hæstv. dómsmrh. að lögin um staðfesta samvist verði tekin til endurskoðunar á næstu mánuðum og unnið að því að fá niðurstöðu í málið, væntanlega með það fyrir augum að tryggja réttindi samkynhneigðs fólks til jafns við aðra og að við fáum þær niðurstöður staðfestar áður en þingi lýkur í vor. Ég vil gjarnan heyra yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. um þetta efni.