Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:05:29 (3199)

1999-12-16 19:05:29# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:05]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka formanni allshn., hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, fyrir góð störf í nefndinni í þessu máli og vil láta koma hér fram lofsorð mín til hennar varðandi afstöðu hennar og vinnu í þessu máli sem ég tel vera til mikillar fyrirmyndar, þá verð ég þó að segja að mér fannst ekki traustur sá ís sem þetta mál er að fara út á þegar maður ætlar að komast yfir vatnið með réttindi samkynhneigðra og barna þeirra í fanginu. Mér sýnist sá ís þunnur ef ekki er fastar að orði kveðið en hv. þm. gerði hér áðan, þ.e. að ekkert sé fast í hendi, að við verðum aðeins að vona það besta. Ég hefði viljað sjá meiri þyngd í þessu máli eftir þær umræður sem hér hafa farið fram.

Ég vil spyrja hv. þm., til þess að þær upplýsingar komi fram hér í hv. Alþingi: Af hverju þurfti að afgreiða þetta mál núna sérstaklega fyrir jól? Eru það áramót sem kalla á þetta? Er það fyrst og fremst þörf þeirra sem núna eru að fá þessar réttarbætur sem ég styð svo sannarlega? Ef svo er að ekkert annað knýr á en að gott sé að afgreiða góð mál, hefðum við þá ekki mátt geyma þetta mál í tvo til þrjá mánuði, þó ég virði þörf allra þeirra sem nú fá réttindi, þar til við hefðum einmitt lokið þeirri vinnu sem hæstv. dómsmrh. er að lofa hér þannig að við hefðum látið þessi mál fylgjast að? Það væri gott fyrir sögu þessa máls að um það fengist nokkur umfjöllun.