Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:07:49 (3200)

1999-12-16 19:07:49# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, Frsm. VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:07]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki sanngjarnt af hv. þm. að koma hérna upp og vera með þennan málflutning vegna þess að hann veit ákaflega vel eftir umfjöllun okkar í nefndinni hver hugur minn er í þessu máli og hvað það er sem ég er að reyna að ná fram. Hvort ísinn er þunnur eða þykkur ætla ég ekki að segja til um en ég ítreka það sem ég sagði áðan að við getum ekki fullyrt nú hver niðurstaða málsins verður. En eitt getum við þó fullyrt og það kemur fram í nál., að frv. til laga um staðfesta samvist verður lagt fram í þinginu í vetur. Þar með er búið að opna lögin og þar með er það ákvörðunarefni þingsins, Alþingis, hvað það vill gera. Ef það er þannig, sem við trúum eða ég trúi, að meiri hluti sé á Alþingi fyrir því að heimila stjúpættleiðingu samkynhneigðra þá verður það niðurstaðan. Og ég ítreka að mér finnst þetta mál vera komið í þann farveg sem er ákjósanlegur og sem er líklegur til þess að leiða til þessarar réttarbótar.