Aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:12:55 (3203)

1999-12-16 19:12:55# 125. lþ. 47.15 fundur 112. mál: #A aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa# þál. 4/125, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:12]

Frsm. utanrmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 327 um till. til þál. um aðild að Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa. Nál. er frá hv. utanrmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðing frá utanríkisráðuneyti og Margréti Hauksdóttur deildarstjóra frá dómsmálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Íslenskri ættleiðingu og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Haagsamningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa er ætlað að samræma skilyrði sem sett eru af hálfu stjórnvalda samningsríkja svo að ættleiðing milli landa megi fara fram með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Tilgangur samningsins er að við ættleiðingu milli landa séu grundvallarréttindi barnsins virt og komið í veg fyrir brottnám barna og verslun með þau, svo og að tryggja að samningsríki viðurkenni ættleiðingar sem fara fram í samræmi við samninginn.

Í umfjöllun nefndarinnar um málið var sérstaklega skoðað hverjir geti ættleitt börn samkvæmt samningnum. Skv. 2. gr. hans eru það annars vegar hjón og hins vegar einstaklingur sem búsettur er í móttökuríki sem það geta, sbr. nánari ákvæði 5. gr. Einstaklingar í óvígðri sambúð og samkynhneigðir í staðfestri samvist geta því ekki ættleitt saman börn frá ríkjum sem eru aðilar að Haagsamningnum.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.

Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Tómas Ingi Olrich, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Sighvatur Björgvinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.